Erlent

110 grunaðir PKK-liðar hand­teknir í Tyrk­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Tyrklandsstjórn kennir PKK um dauða um 40 þúsund manna frá því að samtökin hófu vopnaða baráttu sína fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda í suðausturhluta Tyrklands árið 1984. Myndin er úr safni.
Tyrklandsstjórn kennir PKK um dauða um 40 þúsund manna frá því að samtökin hófu vopnaða baráttu sína fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda í suðausturhluta Tyrklands árið 1984. Myndin er úr safni. Getty

Lögregla í Tyrklandi hefur handtekið á annað hundrað manns vegna gruns um að tengjast kúrdíska verkamannaflokknum PKK sem stjórnvöld í Tyrklandi skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Um þrjár vikur eru nú til kosninga í landinu.

Erlendir fjölmiðlar segja að alls hafi 110 manns verið handteknir í 21 héraði, flestir í bænum Diyarbakir í suðausturhluta landsins þar sem Kúrdar eru í meirihluta.

Í frétt DW er haft eftir kúrdíska þingmanninum Tayip Temel að stjórnmálamenn, lögmenn, blaðamenn og listamenn séu í hópi hinna handteknu. Hann segir að handtökurnar megi rekja til ótta Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseta og hans manna að tapa kosningunum sem framundan séu.

Forseta- og þingkosningar fara fram í Tyrklandi þann 14. maí næstkomandi þar sem Erdogan sækist eftir endurkjöri.

PKK hefur lengi barist fyrir aukinni sjálfstjórn Kúrda í Tyrklandi. Auk Tyrkja skilgreina bæði Bandaríkin og Evrópusambandið PKK sem hryðjuverkasamtök, en Evrópudómstóllinn hefur áður gagnrýnt ESB fyrir að hafa ekki fylgt réttu verklagi þegar samtökin voru flokkuð sem hryðjuverkasamtök.

Tyrklandsstjórn kennir PKK um dauða um 40 þúsund manna frá því að samtökin hófu vopnaða baráttu sína fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda í suðausturhluta Tyrklands árið 1984.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×