Innlent

Réðust inn í verslun vopnaðir hamri og kú­beini

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglu bárust nokkrar tilkynningar um árásir í gærkvöldi og nótt.
Lögreglu bárust nokkrar tilkynningar um árásir í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í gær tilkynning um vopnað rán í Kópavogi, þar sem tveir einstaklingar vopnaðir hamri og kúbeini réðust inn í verslun og höfðu á brott með sér peninga úr peningakassa.

Samkvæmt yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar var starfsmaður verslunarinnar beittur ofbeldi og honum haldið niðri og hlaut hann áverka í andliti. Málið er í rannsókn.

Lögreglu bárust einnig þrjár tilkynningar um árásir en í einu tilvikinu var sagt frá því að tveir menn með lambhúshettur og hníf væru að hlaupa á eftir ungum dreng. Þegar lögregla kom á vettvang var enga að finna og engin tilkynning barst um yfirstaðna árás.

Í öðru tilviki var tilkynnt um mikil læti frá einstaklingum á mótorhjólum í póstnúmerinu 105. Stuttu síðar barst tilkynning um hópslagsmál þar sem margir væru að lemja einn en enginn fannst á vettvangi.

Í þriðja tilvikinu var greint frá því að maður væri meðvitundarlaus eftir hópslagsmál í Hafnarfirði. Viðkomandi var fluttur á slysadeild tli aðhlynningar, þá með meðvitund en einnig með áverka.

Tveimur mönnum í annarlegu ástandi í miðborginni var ekið heim til sín í nótt. Þá var tilkynnt um rúðubrot og einstaklingi vísað út af veitingastað fyrir að vera að angra gesti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×