Innlent

Greiddu 53 milljónir til SGS í fyrra en sæki enga þjónustu þangað

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. 
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.  Vísir

Formaður Eflingar segir mögulega úrsögn félagsins úr Starfsgreinasambandinu (SGS) ekki tengjast óeiningu í kjarasamningsviðræðum í vetur. Hún segir að boðað verði til félagsfundar á næstu dögum þar sem ákveðið verður hvort úrsögnin fari í allsherjaratkvæðagreiðslu eða ekki. 

Í gær var greint frá því að trúnaðarráð og stjórn Eflingar hafi samþykkt að boða til félagsfundar þar sem framtíð félagsins innan SGS verður til umræðu. Á fundinum verður ákveðið hvort málið verði látið niður falla eða fari til allsherjaratkvæðagreiðslu meðal meðlima. 

Í samtali við fréttastofu segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að þetta hafi lengi verið til umræðu innan félagsins. Ástæðan sé sú að Efling sæki enga þjónustu til SGS.

„Á síðasta ári greiddum við í skatta þangað 53 milljónir króna. Við notfærum okkur ekki þjónustu þeirra og erum algjörlega sjálfbær í því. Við höfum innan stjórnar trúnaðarráðs og innan samninganefndar félagsins komist að þeirri niðurstöðu að nú sé tímabært að sjá hvaða skoðun félagsfólk hafi á þessu. Hvort þau séu sammála okkur í því að hagsmunum okkar sé betur borgið með sjálfstæðri aðild að Alþýðusambandi Íslands (ASÍ),“ segir Sólveig. 

Skuli Efling ganga úr SGS getur félagið samt sem áður verið aðildarfélag ASÍ en hingað til hefur félagið verið með aðild að sambandinu í gegnum SGS. 

Á næstu dögum verður boðað til félagsfundar og fer hann fram í þar næstu viku. Fari svo að fundargestir fallist á tillögu um allsherjaratkvæðagreiðslu verður boðað til hennar. 

Aðspurð hvort úrsögnin tengist deilum SGS og Eflingar í kringum kjaraviðræður í vetur segir Sólveig að svo sé ekki. 

„Það hlýtur að vera öllum ljóst að forysta Eflingar og forysta SGS hafa ekki verið sammála um margt í vetur en það er ekki það sem ræður för í þessari ákvörðun,“ segir Sólveig. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×