Fótbolti

Þorleifur í sigurliði en tap hjá Guðlaugi Victor og Róberti

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hector Herrera skoraði og sá rautt. Þorleifur spilaði síðasta hálftímann.
Hector Herrera skoraði og sá rautt. Þorleifur spilaði síðasta hálftímann. vísir/getty

Heil umferð fór fram í bandarísku úrvalsdeildinni, MLS, í fótbolta í gærkvöldi og í nótt.

Íslendingarnir þrír sem leika í deildinni komu mismikið við sögu.

Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn í vörn DC United sem beið lægri hlut fyrir Columbus Crew á heimavelli, 0-2. Man Utd goðsögnin Wayne Rooney þjálfar liðið sem er nú án sigurs í sex leikjum í röð eftir að hafa byrjað tímabilið á sigri.

Þorleifur Úlfarsson spilaði síðasta hálftímann fyrir Houston Dynamo sem vann 3-0 sigur á LA Galaxy. Staðan var 1-0 þegar Þorleifi var skipt inná í leiknum þar sem alls fóru þrjú rauð spjöld á loft.

Allir leikmennirnir sem fengu rauð spjöld eiga langan feril í Evrópuboltanum en Hector Herrera, liðsfélagi Þorleifs, fékk að líta rauða spjaldið í uppbótartíma á meðan Douglas Costa og Martin Caceres í liði LA Galaxy voru sendir í sturtu í viðburðaríkum leik.

Þorleifur og félagar eru með níu stig eftir sex leiki.

Þá sat Róbert Orri Þorkelsson allan tímann á varamannabekknum hjá Montreal sem tapaði stórt fyrir New England Revolution, 4-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×