Innlent

Allt fullt af fólki í sumarbústöðum yfir páskana

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fjöldi fólks dvelur í sumarbústöðum í Uppsveitum Árnessýslu yfir páskana.
Fjöldi fólks dvelur í sumarbústöðum í Uppsveitum Árnessýslu yfir páskana. Aðsend

Allir sumarbústaðir, sem skipta þúsundum í Uppsveitum Árnessýslu eru fullir af fólki nú um páskahelgina. Sundlaugarnar eru vinsælasti afþreyingastaður fólksins í fríinu sínu.

Það hefur verið mikil umferð í Uppsveitum Árnessýslu það sem af er páskum, enda fullt af fólki alls staðar, bæði Íslendingar, sem eru að njóta páskafrísins og erlendir ferðamenn eru áberandi á vegunum og á fjölmennum ferðamannastöðum eins og á Gullfossi og Geysi.

Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveitanna segir að allt hafa gengið ljómandi vel það sem af er páskum og fólk njóti þess greinilega að vera í fríi með sínu fólki.

„Heyrðu, það er bara ljómandi góð stemming, mikið af fólki á ferðinni og allt opið, öll þjónusta og allt slíkt, þannig að það er bara fínt. Páskarnir eru nú yfirleitt góður tími í Uppsveitunum. Fólk notar bústaðina mikið og fjölskyldurnar eru á ferðinni að gera eitthvað skemmtilegt saman,“ segir Ásborg.

Hvað eru svona vinsælustu staðirnir?

„Eru ekki alltaf sundlaugarnar aðalatriðið, ég held að það sé nú það, sem flestir gera þegar þeir fara eitthvað að ferðast og svo eru gönguferðir vinsælar og svo er fólk bara að njóta og vera saman og hafa gaman.“

Ásborg segir að nú sé búið að opna dýragarðinn í Slakka í Laugarási eftir veturinn, það sé alltaf mjög vinsæll staður og þá séu veitingastaðirnir í uppsveitunum alltaf mjög vinsælir hjá Íslendingum og útlendingum.

En það er ekki bara íslenskir ferðamenn á ferðinni í Uppsveitum Árnessýslu um páskana.

„Það er bara töluvert mikið af erlendum ferðamönnum líka á kreiki, þeir eru bæði í rútum og í bílaleigubílum, þannig að þeir eru á þessum helstu ferðamannastöðum og eru að njóta náttúrunnar. Það er gríðarlega mikið af þeim á ferðinni,“ segir Ásborg að lokum.

Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu, sem er mjög ánægð með hvað fólk er duglegt að heimsækja hennar svæði yfir páskana.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×