Innlent

Sló til lög­reglu sem reyndi að skerast í leikinn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Lögregla hafði í nægu að snúast. Myndin var tekin laust eftir klukkan þrjú í nótt, í miðborg Reykjavíkur.
Lögregla hafði í nægu að snúast. Myndin var tekin laust eftir klukkan þrjú í nótt, í miðborg Reykjavíkur. Vísir/KTD

Lögregla stöðvaði átök tveggja manna í miðborginni í gær. Annar þeirra var ósáttur með afskiptin og sló til lögreglumanns á vettvangi. Hann fékk að gista í fangageymslu í nótt.

Tilkynnt var um þjófnað þar sem greiðslukorti var meðal annars stolið. Lögregla grunar ákveðinn einstakling en sá reyndi að nota greiðslukortið í verslun. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjallað er um verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Lögreglu barst tilkynning um slagsmál fyrir utan skemmtistað í gær og hafði afskipti af einum sem átti í erfiðleikum með „mannleg samskipti.“ Enginn var handtekinn en einum var vísað burt.

Þá var manni vísað út úr verslun að beiðni starfsmanns verslunarinnar en sá taldi sig ekki þurfa að gefa upp nafn og kennitölu þegar lögregla mætti á vettvang. Hann var því færður inn í lögreglubifreið en virtist hafa áttað sig og gaf þá undan, að því er fram kemur í dagbókinni. Lögreglustöð 1, sem sér um Austurbæ, Vesturbæ, Miðborg og Seltjarnarnes, sá um útkallið.

Eins og oftlega um helgar voru nokkrir ökumenn stöðvaðir undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Lögreglumenn á Stöð 4, sem sjá um Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ, stöðvuðu för ökumanns sem reyndist hafa neytt áfengis, en mældist rétt undir kærumörkum. Lögregla skutlaði honum síðasta spölinn.

Þá var tilkynnt um tvær líkamsárásir á stöð 3, Kópavogur og Breiðholt, og er önnur þeirra flokkuð sem heimilisofbeldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.