Búið er að lýsa yfir hættuástandi vegna ofanflóða á Eskifirði og verið að rýma hús þar. Rýmingin gildir frá klukkan fjögur í dag, þar til hún er felld niður.
Þau hús sem verið er að rýma eru á reitum ellefu og tólf. Áður höfðu hús á reiti fjögur verið rýmd.
Íbúar eru beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöð í grunnskólanum á Eskifirði eða hafa samband í síma 1717 ef þau eru með annan dvalarstað.
Fulltrúar aðgerðastjórnar munu fara milli húsa frá klukkan 15 og 16 og aðstoða og veita leiðbeiningar þeim er þurfa.
Húsin eru:
Bleiksárhlíð 62 – 67 – 67a – 69
Fossagata 1
Bakkastígur 1
Grjótárgata 6 – þar með talið bílskúrar C/D/E
Tungustígur 1 – 3a
Strandgata 36 – 37a – 37b
Fyrr í dag var ákveðið að rýma fleiri hús í Neskaupstað vegna ofanflóðahættu þar. Þá var einnig búið að rýma hús á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði.
Veðurstofan hefur ákveðið frekari rýmingu í Neskaupsstað vegna ofanflóðahættu frá og með klukkan þrjú í dag. Fyrr í dag var ákveðið að grípa til rýminga á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Rýmingar eru sömuleiðis í gildi á Seyðisfirði og Eskifirði.
Líklega verður farið í frekari rýmingar á Austfjörðum eftir hádegi vegna slæmrar veðurspár. Helsta áhyggjuefnið núna eru möguleg krapaflóð og aurskriður en það bætist við snjóflóðahættu sem einnig er á svæðinu og hafa einhver flóð fallið í morgun. Yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir mikilvægt að fólk sýni sérstaka aðgát.
Lögreglan á Austurlandi biðlar til íbúa að huga að niðurföllum en búist er við því að úrkoma þar nái hámarki síðar í dag. Í tilkynningu segir að allar varúðarráðstafanir vegna snjóflóðahættu og annars séu enn til staðar.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.