Gatnamót Laugavegs og Frakkastígs, þar sem fyrrnefnd gatan verður að göngugötu, verða betrumbætt á næstu dögum og afmörkun göngugötusvæðisins gerð skýrari.
Framkvæmdir verða undirbúnar nú fyrir páska og fara síðan á fullt strax eftir þá. Áætlaður framkvæmdatími er átta vikur en framkvæmdaleyfið gildir til 31. maí næstkomandi.
Framkvæmdin felst eingöngu í yfirborði götunnar en ekki er um lagnavinnu að ræða. Götukantar verða endurgerðir og yfirborð hellulagt en gatan verður þrengd á meðan vinnu stendur.
Umrædd gatnamót. Sjá má á skiltunum að ekki má aka þar niður, en sumir hafa lent í því að sjá þau ekki, eða einfaldlega hunsa þau. Reykjavíkurborg
„Afmörkun göngugötuhluta Laugavegs við Frakkastíg vegna framkvæmdarinnar felst í betra aðgengi fyrir alla. Öryggi virkra ferðamáta eins og gangandi á göngugötusvæðinu verður verulega bætt með betri sýnileika göngugötunnar og minni óæskilegri umferð,“ segir í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.
Fjallað var um göngugötuna og erfiðleika fólks við að sjá að ekki mætti keyra niður hana í kvöldfréttum Stöðvar 2 árið 2021. Í miðju viðtali þurfti aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að stökkva frá til að benda ökumanni á að ekki mætti keyra þar.
Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.
Klippa: Stjórnleysi á Laugavegi þar sem ökumenn skilja hvorki upp né niður
Skiptar skoðanir eru um ágæti þess að hafa Laugaveg göngugötu allt árið. Margir verslunareigendur óttast að íslensk veðrátta muni skemma fyrir viðskiptum. Formaður skipulags- og samgönguráðs telur kröfu um að geta keyrt upp að verslunum úrelt módel.
Borgarfulltrúarnir Dagur B. Eggertsson og Hildur Björnsdóttir eru sammála um að breytingin sé til góðs.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.