Fótbolti

Kristianstad byrjar tímabilið vel

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hlín var í byrjunarliði Kristianstad í dag.
Hlín var í byrjunarliði Kristianstad í dag. Heimasíða Kristianstad

Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Kristianstad sem vann góðan 3-1 sigur í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Amanda Andradóttir kom einnig við sögu í leiknum.

Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Kristianstad sótti Hlín til Piteå fyrir tímabilið en Hlín hafði leikið þar undanfarin tvö tímabil. Hlín var í byrjunarliði Kristianstad í dag sem tók á móti Kalmar á heimavelli sínum.

Og það er óhætt að segja að lið Kristianstad hafi byrjað tímabilið af krafti. Emmi Alanen kom liðinu í 1-0 á 9. mínútu leiksins og Evelyne Viens bætti öðru marki við fjórum mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks.

Alonen bætti sínu öðru marki við rétt fyrir hálfleiksflautið og staðan 3-0 fyrir Kristianstad í hálfleik.

Amanda Andradóttir kom inn á í liði Kristianstad á 60. mínútu en liðinu tókst ekki að bæta við mörkum í síðari hálfleik. Svea Rehnbeg minnkaði muninn fyrir Kalmar þegar skammt var eftir af leiknum en lengra komust leikmenn Kalmar ekki.

Lokatölur 3-1 og Kristianstad byrjar tímabilið vel í sænsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×