Lögreglan rannsakar upptök sprengingarinnar sem varð í Garðabæ síðdegis í gær þegar eldur blossaði upp á þaki nýbyggingar í bænum. Gaskútar sprungu með tilheyrandi látum og þeyttust tugi metra.
Sjá einnig: Lygilegt myndband sýnir vegfarendur á harðahlaupum frá sprengingunni
Tjörupappinn jafnan hitaður með gasi
Það kviknaði í svokölluðum tjörupappa sem mikið er notaður á hús hér og landi. Til þess að leggja hann á þarf að hita hann upp. Það er gjarnan gert með gasi og þess vegna voru gaskútarnir á staðnum. Mikil mildi þykir að enginn hafi slasast.
Guðmundur Mar Magnússon, sérfræðingur hjá vinnueftirlitinu, segir mikilvægt að huga að því hvernig hættuleg efni séu geymd á vinnustöðum. Mannvirki í byggingu séu undir sérstöku eftirliti.

„Það sem gildir um meðhöndlun hættulegra efna er náttúrulega að menn séu meðvitaðir um hættuna og þekki hætturnar, og meðhöndli efnin rétt; allar verklagsreglur í kringum svona efni séu fastar og þeim fylgt eftir. Vinnueftirlitið hefur eftirlit með vinnustöðum í byggingu eins og öðrum vinnustöðum. Þessir hlutir eru í skoðun hjá okkur alla daga. Við erum með teymi, mannvirkjateymi, sem sinnir eftirliti með mannvirkjagerð.“
Gunnar segir að starfsmenn Vinnueftirlitsins muni ræða við verktakana sem standa að byggingu hússins eftir helgi.
„Við munum nálgast þessa verktaka sem eru að sinna þessari vinnu og fara yfir þessi mál með þeim, áhættumat og annað í tengslum við þessa vinnu. Og þá uppfæra ef í ljós kemur að verklag er að einhverju leyti ábótavant. Þá munum við fara yfir það og koma með leiðbeiningar um úrbætur.“