Fótbolti

Sveindís Jane kom inn af bekknum þegar Wolfsburg kom sér í góða stöðu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir byrjaði á varamannabekknum hjá Wolfsburg í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir byrjaði á varamannabekknum hjá Wolfsburg í kvöld. Vísir/Getty

Wolfsburg er í fínum málum í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu eftir að liðið vann 1-0 útisigur á PSG í kvöld. Sveindís Jane Jónsdóttir var í liði Wolfsburg.

Lið Wolfsburg er í efsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu en liðið er með nauma forystu á Bayern Munchen í toppbaráttunni. Lið PSG er einnig í eldlínunni í Frakklandi, liðið er einu stigi á eftir Lyon í deildinni en Lyon tapaði einmitt fyrir Chelsea í Meistaradeildinni í kvöld.

Sveindís Jane hóf leikinn á bekknum en Wolfsburg sá til þess að kvöld franskra liða í Meistaradeildinni í kvöld fór ekki vel. Liðið vann 1-0 útsigur í hörkuleik og er því í ágætri stöðu fyrir síðara leik liðanna í næstu viku.

Bæði lið áttu sínar sóknir í fyrri hálfleiknum sem var markalaus. Fjörið byrjaði hins vegar í síðari hálfleik. Á 62. mínútu fékk Wolfsburg vítaspyrnu eftir að Élisa De Almeida fékk boltann í höndina inni í vítateig.

Atvikið var skoðað í VAR og vítaspyrna niðurstaðan auk þess sem De Almeida fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Sannkallaðar martraðarmínútur fyrir heimakonur í PSG.

Dominique Janssen skoraði úr vítaspyrnunni fyrir Wolfsburg og þýska liðið komið í forystu. Sveindís Jane kom inn af bekknum á 79. mínútu en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki eftir að Wolfsburg komst yfir.

Lokatölur 1-0 og einvígið því galopið fyrir síðari leikinn. Berglind Björg Þorvaldsdóttir var ekki í leikmannahópi PSG í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.