Um er að ræða árlega kvikmynda- og ráðstefnuhátíð fagfólks í kvikmyndabransanum sem haldin er í samvinnu við öll fagfélög í kvikmyndagreinum á Íslandi. Hátíðin var fyrst haldin árið 2015 með það að leiðarljósi að endurvekja Kvikmyndahátíð Reykjavíkur undir nýju nafni.
Markmið hátíðarinnar er að efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands.
Um 26 kvikmyndir frá hinum ýmsu heimshornum verða sýndar á hátíðinni í ár. Þá verða sérstök heiðursverðlaun veitt í fyrsta skipti í sögu hátíðarinnar fyrir „stórkostlegt framlag til kvikmyndaiðnaðarins“. Handhafi verðlaunanna í ár er enginn annar en írski framleiðandinn Mike Downey en hann hlýtur verðlaunin fyrir ómetanlegt framlag til kvikmyndaiðnaðarins síðustu áratugi.

Downey stofnaði framleiðslufyrirtækið Film and Music Entertainment árið 2000. Síðan hefur hann gert yfir 100 kvikmyndir í fullri lengd eftir leikstjóra á borð við Peter Greenaway, Agnieszka Holland, Julien Temple, Paweł Pawlikowski, Andrzej Jakimowski, Rajko Grlic, Juraj Jakubisko, Friðrik Þór Friðriksson og Stephan Daldry.
Auk framleiðslu kvikmynda hefur Mike verið listrænn stjórnandi kvikmyndahátíða um nokkurra ára skeið, verið meðlimur í Evrópsku kvikmynda akademíunni í um aldarfjórðung og stjórnarmaður í næstum tvo áratugi. Árið 2020 var hann svo kjörinn formaður Evrópsku kvikmynda akademíunnar. Áður var hann kosinn bæði í ráð og kvikmyndanefnd fyrir BAFTA.
Hægt er að kynna sér dagskrá hátíðarinnar hér.