Innlent

Tæpar 160 milljónir í sekt fyrir skatt­svik

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm í málinu fyrr í mánuðinum.
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm í málinu fyrr í mánuðinum. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik. Honum ber að greiða 158 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs fyrir glæpinn innan fjögurra vikna, ella sæta fangelsi í 360 daga.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa skilað röngum virðisaukaskattskýrslum, sleppt því að skila þeim eða sleppt því að greiða virðisaukaskatt á nánar tilgreindu tveggja ára tímabili. Héraðssaksóknara reiknaðist svo að vangreiddur virðisaukaskattur næmi tæpum 65 milljónum króna.

Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa ekki tilkynnt virðisaukaskattskylda starfsemi fyrr en of seint og fyrir brot á lögum um bókhald.

Maðurinn játaði skýlaust að hafa framið skattsvik. Héraðsdómara þótti ekki ástæða til að draga játningu hans í efa. Við ákvörðun refsingar þyrfti annars vegar að taka mið af því að brotin voru framin árin 2016 og 2017, og því tiltölulega langt síðan, og hins vegar af því að brotin væru stórfelld.

Héraðsdómara taldi rétt að miða fésekt við þrefalda fjárhæð vangreiddra skatta með vísan til laga um virðisaukaskatt, samtals 158 milljónir króna. Eins og áður sagði ber manninum að greiða sektina innan fjögurra vikna, ella sæta fangelsi í 360 daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×