Erlent

Tveir látnir í Kanada eftir að ekið var á gangandi veg­far­endur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rannsókn lögreglu snýr meðal annars að því hvort maðurinn ók viljandi á fólkið.
Rannsókn lögreglu snýr meðal annars að því hvort maðurinn ók viljandi á fólkið. AP/CTV News

Tveir menn eru látnir og níu særðir eftir að pallbíl var ekið á gangandi vegfarendur í bænum Amqui, norður af borginni Quebec, í Kanada. Lögregla hefur handtekið 38 ára ökumann bifreiðarinnar og verið er að rannsaka hvort hann ók viljandi á fólkið.

„Allt bendir til þess að þetta sé einangrað tilvik,“ sagði Helene St Pierre, talsmaður lögreglunnar í Quebec, í samtali við fjölmiðla. „Það er engin hætta á ferð og aðeins einn grunaður.“

Guardian hefur eftir lögreglu að manninum sé haldið á lögreglustöð í bænum og að hann sé að ræða við lögregluþjóna. 

Látnu voru karlmenn á sjötugs- og áttræðisaldri. Ástand tveggja hinna slösuðu er alvarlegt en á meðal þeirra voru þrjú börn. Til stendur að flytja særðu til Quebec.

Atvikið átti sér stað eftir klukkan 15 í gær, að staðartíma. Að sögn vitna var bifreiðinni ekið á nokkra gangandi vegfarendur og hélt síðan áfram 400 til 500 metra og á nokkra til viðbótar. 

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, tísti um málið í gær og sagði hug sinn hjá þeim sem ættu um sárt að binda. Þá þakkaði hann viðbragðsaðilum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×