Innlent

Níu hjúkrunar­fræðingar frá Filipps­eyjum ráðnir til HSU

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU), sem segist vera með ánægð með nýja starfsfólkið frá Filippseyjum.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU), sem segist vera með ánægð með nýja starfsfólkið frá Filippseyjum.

Níu hjúkrunarfræðingar og einn geislafræðingur frá Filippseyjum hafa verið ráðnir til starfa hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og nú er leitað að átta starfsmönnum til viðbótar frá útlöndum.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands glímir við talsverðan mönnunarskort vegna aukinnar þjónustuþarfar og styttingu vinnuvikunnar og því hefur verið markvisst verið leitað út fyrir landsteinana að starfsfólki enda fæst lítið, sem ekkert af íslensku starfsfólki. Leitin hefur gengið nokkuð vel.

„Við erum með ráðningarskrifstofu, sem hjálpar okkur að leita að fólkinu úti. Nú þegar erum við búin að ráða til okkar tíu starfsmenn frá Filippseyjum og þar erum við með níu hjúkrunarfræðinga og einn geislafræðing. Þau eru nú þegar byrjuð að starfa hjá okkur,“ segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og bætir við.

„Þau eru ekki komin með starfsleyfi en eru byrjuð að starfa í almennri umönnun og aðstoð inn á einingunum sínum. Nýja starfsfólkið er í íslenskunám og eru að læra íslensku samhliða vinnunni, þannig að við erum að reyna að halda sem best utan um þau þannig að þau aðlagaðist inn í okkar umhverfi og það gengur bara ljómandi vel.“

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur útvegað erlenda starfsfólkinu húsnæði. Nú er verið að leita að átta hjúkrunarfræðingum fyrir utan landsteinana til að vinna á Móbergi, nýju hjúkrunarheimili á Selfossi, sem Heilbrigðisstofnunin rekur.

Nú er leitað að átta hjúkrunarfræðingum til viðbótar við þá hjúkrunarfræðinga, sem starfa í dag á nýja hjúkrunarheimilið Móberg á Selfossi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Í dag erum við með 150 hjúkrunarfræðinga á HSU, við þurfum bara fleiri. Það er bara mikilvægt að vera með fagfólk hjá okkur til að tryggja bæði öryggi þjónustunnar og gæði, þannig að við erum að leita þessa leiðina. Við þurfum líka að fá lækna til okkar, þannig að við erum líka að skoða það að reyna að ráða til okkar erlenda lækna," segir Díana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×