Innlent

Leit að Gunnari Svan heldur áfram án þyrlu gæslunnar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Leit að Gunnari Svan á Eskifirði og í nágrenni heldur áfram í dag.
Leit að Gunnari Svan á Eskifirði og í nágrenni heldur áfram í dag. samsett

Leit að Gunnari Svan Björgvinssyni, sem ekkert hefur spurst til í um hálfan mánuð, heldur áfram í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar verður ekki notuð við leitina, eins og til stóð, vegna bilunar.

Leitin hefur verið umfangsmikil en Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, gerir ráð fyrir að það dragi úr leitinni í framhaldinu.

„Núna er fyrst og fremst verið að hnýta lausa enda eftir gærdaginn. Áherslan verður í framhaldinu lögð á fjörur í Eskifirði og Reyðarfirði og þegar veður leyfir verður farið upp í hlíðar hér í nágrenni,“ segir Kristján í samtali við fréttastofu.

Notast átti við þyrlu Landhelgisgæslunnar við leitina í dag.

„Hún bilaði á Egilsstöðum og verður ekki í notkun í dag. Það er verið að skoða dróna-yfirferð en óvíst hvort það verði í dag eða á næstu dögum,“ segir Kristján Ólafur.

Síðast er vitað um ferðir Gunnars 24. febrúar síðastliðinn við heimili sitt á Eskifirði. Gunnar er liðlega fertugur að aldri, 186 cm á hæð, grannvaxinn með áberandi sítt brúnt hár.

Þeir er vita um ferðir Gunnars eftir þennan tíma eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 0600 eða 444 0635 eða með tölvupósti á netfangið austurland@logreglan.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×