Innlent

Sjó­menn hafna tíma­móta­samningi: „Mikil von­brigði“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.

Öll aðildarfélög innan Sjómannasambands Íslands hafa fellt nýgerðan kjarasamning í atkvæðagreiðslu. Samningurinn var talinn vera tímamótasamningur enda gilti hann til tíu ára.

Samningurinn var undirritaður hinn 9. febrúar síðast liðinn af forsvarsmönnum Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Sjómenn höfðu þá verið án kjarasamnngs í þrjú ár.

Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands segir öll sextán félögin innan sambandsins hafa fellt samninginn.

„Mikil vonbrigði,“ segir Valmundur. Samningurinn var felldur með 67 prósentum greiddra atkvæða en 32 prósent greiddu atkvæði með honum.

Valmundur segir óvissu ríkja um framhaldið en reiknar með að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari boði til fundar í næstu viku. Hann hafi í fljótu bragði ekki hugmynd um hvers vegna svo stórt hlutfall þeirra félagsmanna sem greiddu atkvæði völdu að fella samninginn. Hann þurfi að sofa á þessu.  Hann viti til að mynda ekki hvort óvenjulega langur gildistími samningsins hafi ekki hugnast sjómönnum.

„Ég bara veit það ekki ennþá hvað mér á að finnast um það, ég þarf bara að fá að melta þetta aðeins betur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×