Fótbolti

Þjálfari franska kvenna­lands­liðsins neitar að hætta og talar um rógs­her­ferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Corinne Diacre gefur sig ekki og vill stýra franska landsliðinu áfram þrátt fyrir alla gagnrýnina.
Corinne Diacre gefur sig ekki og vill stýra franska landsliðinu áfram þrátt fyrir alla gagnrýnina. Getty/Catherine Ivill

Corinne Diacre er þjálfari franska kvennalandsliðsins í fótbolta og vill vera það áfram þrátt fyrir að hafa fengið á sig mikla gagnrýni síðustu vikur.

Pressan var orðin mikil og bjuggust því flestir við því að hún myndi stíga til hliðar. Hún ætlar hins vegar að berjast fyrir starfi sínu.

Margir leikmenn franska liðsins eru mjög ósáttar með hana og franskir fjölmiðlar halda því fram að þær vilji ekki spila fyrir hana á heimsmeistaramótinu í sumar.

Diacre ræddi við blaðamann The Associated Press og sagðist þar vera í áfalli yfir því ofbeldi og óheiðarleika hún hefur þurft að þola í þessari tilraun til að koma henni frá völdum.

Í síðasta mánuði tilkynnti fyrirliðinn Wendie Renard að hún yrði ekki með á heimsmeistaramótinu af því að hún er ónægð með það sem er í gangi hjá franska landsliðinu.

Í kjölfarið ákváðu framherjarnir öflugu, Marie-Antoinette Katoto og Kadidiatou Diani, að gefa heldur ekki á kost á sér.

„Ég hef haldið þetta út þrátt fyrir miklar þjáningar, sögusagnir, ósannindi og metnað sumra til að koma mér frá,“ sagði Corinne Diacre sem segir að það sé rógsherferð í gangi gegn sér.

Hún er staðráðinn í að gera góða hluti með franska liðið á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

„Þrátt fyrir alla þessa skammarlegu umfjöllun fjölmiðla undanfarna daga þá ætla ég að ítreka það sem ég sagði við stjórn sambandsins. Ég er staðráðin í að halda áfram verkefni mínu og umfram allt gera Frakka stolta af liði sínu á næsta heimsmeistaramóti,“ sagði Diacre.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×