Innlent

Dómi yfir Jóni Baldvini ekki haggað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra á árunum 1988 til 1995.
Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra á árunum 1988 til 1995. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni Jóns Baldvins Hannibalssonar vegna dóms Landsréttar yfir honum fyrir kynferðislega áreitni á Spáni.

Í desember á síðasta ári var Jón Baldvin, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Landsrétti fyrir kynferðislega áreitni á Spáni.

Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur sýknað Jón Baldvin.

Jón Baldvin óskaði eftir leyfi Hæstiréttar til að áfrýja málinu. Var það á þeim grundvelli að það sem honum var gefið að sök hafi verið refsivert samkvæmt spænskum hegningarlögum. Þörf væri á fordæmi Hæstaréttar um þær kröfur sem gera verði til sönnunar á tilvist og efni erlendra lagagreina.

Þá væru annmarkar á sönnunarmati Landsréttar auk þess sem að hann taldi að framburður brotaþola og móður hennar væri mótsagnakenndur í mörgu tilliti.

Hæstiréttur taldi hins vegar að málið hefði hvorki verulega almenna þýðingu né væri það mikilvægt af öðrum ástæðum svo að þörf væri á úrlausn Hæstaréttar. Þá væri niðurstaða Landsréttar að mörgu leyti byggð á sönnunargildi munnlags framburðar, sem er ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti.

Var beiðninni því hafnað.


Tengdar fréttir

Jón Baldvin fékk tveggja mánaða dóm fyrir kynferðislega áreitni

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Landsrétti í dag fyrir kynferðislega áreitni á Spáni. Þá var hann dæmdur til að greiða allan sakarkostnað og áfrýjunarkostnað vegna málsins. Verjandi Jóns Baldvins segir að sótt verði um áfrýjunarleyfi í málinu til Hæstaréttar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×