Fótbolti

Bellingham: Brandari að Chelsea hafi fengið að endurtaka vítaspyrnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham var ekki sáttur með afskipti myndbandadómara í tapi Borussia Dortmund í gær.
Jude Bellingham var ekki sáttur með afskipti myndbandadómara í tapi Borussia Dortmund í gær. Getty/James Williamson

Jude Bellingham, miðjumaður Borussia Dortmund, var allt annað en sáttur með kringumstæðurnar í markinu sem skaut liði hans út úr Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Staðan var 1-1 samanlagt í einvíginu þegar Chelsea fékk víti eftir aðstoð Varsjárinnar. Kai Havertz tók vítið en skaut í stöngina. Varsjáin var þó ekki hætt því hún lét endurtaka vítið þar sem nokkrir leikmenn Dortmund voru komnir of snemma inn í teig.

Kai Havertz tók vítið aftur og skoraði. Hann tryggði Chelsea þar með 2-0 sigur í leiknum og komst liðið því áfram 2-1 samanlagt.

Vítið hafði verið dæmt á hendi á Marius Wolf. Bellingham var ósáttur með báða myndbandadómana.

„Ég veit ekki hvað annað hann gæti gert með hendinni sinni,“ sagði Jude Bellingham um vítadóminn en svo var komið að því að tjá sig um endutöku vítaspyrnunnar.

„Það voru vonbrigði að þetta skyldi vera víti en sú staðreynd að þeir fengu að endurtaka vítið er bara brandari,“ sagði Bellingham.

„Í öllum vítaspyrnum, sérstaklega þegar menn hlaupa svona hægt að boltanum, þá eru leikmenn komnir eitthvað inn í teiginn. Hann tók þessa ákvörðun og við verðum að lifa með henni,“ sagði Bellingham.

„Ég vil samt ekki segja meira og koma mér í vandræði. Ég hef borgað þeim nógu mikið hingað til,“ sagði Bellingham ósáttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×