Fótbolti

Gefast upp á úrslitakeppni sem á að prófa á Íslandi í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir spilar með Valerenga í norsku deildinni en mikil óánægja var með úrslitakeppnistilraunina þar.
Íslenska landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir spilar með Valerenga í norsku deildinni en mikil óánægja var með úrslitakeppnistilraunina þar. Getty/ Joris Verwijst

Sumarið verður sögulegt í íslenska kvennafótboltanum enda verður þá tekin upp úrslitakeppni í fyrsta sinn. Norðmenn eru aftur á móti búnir að dæma sína úrslitakeppni til dauða eftir aðeins eitt ár.

Norsku knattspyrnukonurnar höfðu lýst yfir óánægju sína með úrslitakeppnina eftir þetta fyrsta ár.

Á ársþingi norska knattspyrnusambandsins um helgina var niðurstaðan líka skýr. Stjórn sambandsins hafði lagt inn tillögu um að hætta með úrslitakeppnina og hún var samþykkt með 137 atkvæðum gegn aðeins tveimur.

Þess í stað verður tekin upp þreföld umferð og liðin mætast því þrisvar sinnum í sumar.

Úrslitakeppnin átti reyndar að byrja árið 2020 en var frestað um tvö ár vegna kórónuveirunnar.

Tíu lið eru í deildinni og spiluðu þau öll fyrst innbyrðis, heima og úti. Eftir það fóru fjögur efstu liðin áfram í úrslitakeppni um titilinn en hin sex liðin fóru í úrslitakeppni um að sleppa við fall ásamt tveimur liðum úr b-deildinni.

Þetta er þó ekki eins úrslitakeppnin er hér heima á Íslandi. Liðin tóku nefnilega ekki með sér stigin úr fyrri hlutanum heldur fékk liðið í fyrsta sæti sex stig, næsta lið fjögur stig, þriðja liðið tvö stig og liðið í fjórða sæti fór stigalaust inn i úrslitakeppnina.

Hér heima taka liðin með sér inn í úrslitakeppnina öll stigin sem þau unnu sér inn í deildarkeppninni og frábært gengi þar gefur liðinu gott forskot í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×