Félagsmenn Eflingar samþykktu í gær enn víðtækari verkfallsaðgerðir sem standa fyrir dyrum þann 28. febrúar. Atkvæðagreiðslur félaga í Samtökum atvinnulífsins um verkbann lýkur á morgun. Verkbannið næði til allra félagsmanna Eflingar og tæki gildi 2. mars.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi stöðuna í beinni útsendingu í hádegisfréttum Bylgjunnar. Aðspurð hvort ríkisstjórnin ætlaði að beita sér í deilunni sagði hún aðkomu ríkisstjórnarinnar hafa verið kynnt fyrir áramót. Vísaði hún þar til aðgerða sem ráðherrar kynntu varðandi húsnæðismarkaðinn almennt, leigumarkað og mögulega leigubremsu, auk stuðnings við barnafjölskyldur.
„Ég vil ítreka að það er skylda aðila að gera allt sitt til að ná samningum. Þar er boltinn í þessari kjaradeilu,“ sagði Katrín.
Ráðherrar hafi rætt stöðuna á verkfallsaðgerðum og yfirvofandi verkbanni, hvaða undanþágur hafi verið veittar og hvaða áhrif geti orðið af verkföllum og verkbanni.
Þá sagði Katrín í framhaldinu mjög dapurlegt að ekki hefði enn náðst samkomulag. Ekkert hefði verið rætt af hálfu ríkisstjórnar að grípa inn í deiluna með einum eða öðrum hætti.