Innlent

Hellisheiði og Þrengsli lokuð: Allt að tíu bíla árekstur við Hveradali

Samúel Karl Ólason skrifar
Bæði Hellisheiði og Þrengslin eru lokuð.
Bæði Hellisheiði og Þrengslin eru lokuð. Vísir/Vilhelm

Nokkrir hafa verið fluttir á slysadeild eftir allt að tíu bíla árekstur á Hellisheiði í dag. Nánar tiltekið varð áreksturinn við Hveradali en enginn slasaðist alvarlega, samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi.

Upprunalega barst tilkynning um að tíu bílar hefðu lent saman en líklegt er að þeir séu færri en það.

Búið er að loka bæði Hellisheiði og Þrengslum vegna færðar og veðurs en bílar sitja fastir á báðum leiðum. Björgunarsveitarfólk er þar að störfum og meðal annars á snjóbílum.

Einnig er verið að kanna hvort tveir menn séu týndir upp á Skarðsmýrarfjalli. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg er óljóst hvort mennirnir séu í einhverjum vandræðum eða bara í sambandsleysi í skála á fjallinu. Búið er að setja björgunarsveitarfólk í startholurnar í Reykjavík, ef leita þarf að mönnunum.

Samkvæmt Vegagerðinni er Mosfellsheiði enn opin en hún gæti lokast með skömmum fyrirvara. Þá hefur öllu innanlandsflugi verið aflýst í dag, samkvæmt upplýsingum á vef Isavia.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×