Fótbolti

Xavi segir að Raphinha hafi ekki þurft að biðjast afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raphinha fagnar marki sínu fyrir Barcelona á móti Manchester United í gærkvöldi.
Raphinha fagnar marki sínu fyrir Barcelona á móti Manchester United í gærkvöldi. AP/Joan Monfort

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Raphinha baðst í gær afsökunar á því hvernig hann brást við þegar hann var tekinn af velli í 2-2 jafntefli Barcelona og Manchester United í Evrópudeildinni.

Raphinha var nýbúinn að jafna metin í 2-2 þegar Xavi ákvað að taka hann af velli og setja Ferran Torres inn á í staðinn.

Raphinha var þarna bæði búinn að skora og leggja upp mark í leiknum og þótti mörgum skrýtið að sjá hann tekinn af velli þegar liðið þurfti á marki að halda. Hann sjálfur var mjög ósáttur með skiptinguna og liðsfélagi hans Jordi Alba þurfti meðal annars að róa hann niður.

„Ég vil biðja alla afsökunar opinberlega,“ sagði Raphinha við Movistar eftir leikinn.

„Ég bið þjálfarann, Ferran og alla stuðningsmennina afsökunar. Við viljum allir svo mikið spila og þú missir stundum stjórn á tilfinningunum og þá getur þetta gerst. Við erum allir mannlegir. Ég gerði mistök og biðst afsökunar á þeim,“ sagði Raphinha.

Þjálfari hans Xavi Hernández var bara ef eitthvað er ánægður með að fá þessi viðbrögð frá leikmanni sínum.

„Ég skil fullkomlega reiði hans. Þetta gerðist líka fyrir mig á mínum ferli en ég tek ákvarðanir fyrir liðið en ekki einstaka leikmenn,“ sagði Xavi Hernández.

„Hann hefur komið fram og beðist afsökunar en hann þurfti þess ekki. Svona hugarfar eiga menn að hafa. Ég horfi ekki á þetta neikvætt, ég sé þetta sem jákvæðan hlut. Leikmenn mega líka svívirða mig ef þeir vilja og ég meina það,“ sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×