Innlent

Segjast hafa sam­þykkt allar undan­þágur vegna al­manna­öryggis

Kjartan Kjartansson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er jafnframt formaður undanþágunefndar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er jafnframt formaður undanþágunefndar. Vísir/Vilhelm

Undanþágunefnd Eflingar segist hafa samþykkt allar beiðnir um undanþágur frá verkfalli sem hefst á morgun á forsendum almannaöryggis sem henni hafa borist. Af þeim tugum umsókna sem nefndin hefur fjallað um hefur einhverjum verið hafnað.

Ótímabundnar undanþágur frá verkfallinu frá viðbragðsaðilum í neyðarþjónustu og stofnunum sem gegna lykilhlutverki í samgöngu- og upplýsingainnviðum voru samþyktar á fundi undanþágunefndarinnar í kvöld, að því er segir í tilkynningu á vef Eflingar.

Á meðal þeirra sem sóttu um voru ríkislögreglustjóri, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Rauði krossinn, Strætó, Ríkisútvarpið og vetrarþjónusta Vegagerðarinnar. 

Undanþágubeiðnirnar sem voru samþykktar voru um sjötíu talsins. Þremur umsóknum var hafnað og í nokkrum tilfellum var óskað eftir nánari rökstuðningi eða undanþága veitt að hluta. 

Nefndin segist funda aftur á morgun til að fara yfir fjölda annarra umsókna, mestmegnis frá smærri aðilum. Í tilkynningunni segir að nefndin hafi átt í samskiptum við Landspítalann og fleiri aðila sem vinni að undirbúningi undanþágubeiðna sem skilað verði inn á næstu dögum.

Verkfall olíuflutningabílstjóra og hótelstarfsfólks í Eflingu hefst að óbreyttu á hádegi á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×