Innlent

Fullnaðar­sigur Eflingar í fé­laga­tals­deilu við sátta­semjara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar fagnar sigri í dómsmáli sínu gegn sáttasemjara.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar fagnar sigri í dómsmáli sínu gegn sáttasemjara. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Efling þurfi ekki að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt. Þetta staðfestir lögmaður Eflingar í samtali við fréttastofu.

Í niðurstöðu Landsréttar segir að ákvæði laganna kvæðu ekki á um heimild ríkissáttasemjara til að fá kjörskrá Eflingar afhenta. Það myndi raunar ganga gegn tilgangi laga. Þá taldi Landsréttur að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fæli í sér inngrip í samningsrétt stéttarfélaga og atvinnurekenda sem nyti verndar af stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Var ekki fallist á að sáttasemjari ætti lögbundið tilkall til umráða yfir kjörskrána.

Unnu saman að flýtimeðferð

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði sem kunnugt er fram miðlunartillögu í deilu Eflingar við Samtök atvinnulífsins sem komin var í algjöran hnút. Var hún á þann veg að allir félagsmenn Eflingar skyldu greiða atkvæði um kjarasamning til eins árs með sambærilegum kjörum og afturvirkni og félagsmenn Starfsgreinsambandsins og VR.

Krafðist sáttasemjari að Efling afhenti félagatal sitt svo hægt væri að hefja atkvæðagreiðslu. Því hafnaði Efling og ákvað sáttasemjari því að stefna Eflingu. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að Efling ætti að láta félagatal sitt af hendi. Réttaráhrifum skyldi ekki fresta þótt úrskurðurinn yrði kærður til Landsréttar.

Aðalsteinn Leifsson er ríkissáttasemjari. Ekki hefur náðst í hann við vinnslu fréttarinnar.Vísir/Vilhelm

Sólveig Anna og félagar í Eflingu kærðu úrskurðinn og neituðu að afhenda félagatalið. Sáttasemjari hugðist leita til sýslumanns og gera aðfararbeiðni til að starfsmenn sýslumanns myndu ná í félagatalið með valdi. Fór svo að samkomulag tókst með Eflingu og sáttasemjara um að leggja sitt af mörkum til að málið hlyti flýtimeðferð í Landsrétti. Varð samkomulag að staðfesti Landsréttur úrskurðinn úr héraði myndi Efling láta félagatal sitt af hendi. 

Málið fékk flýtimeðferð og var úrskurður kveðinn upp í dag, Eflingu í vil. Niðurstaðan er sú að Eflingu er ekki skylt að afhenda ríkissáttasemjara kjörskrá sína.

Dómararnir hafi kynnt sér málið vel

„Þetta er versti áfellisdómur yfir vinnubrögðum ríkissáttasemjara sem hægt var að hugsa sér. Ég treysti því að íslenska ríkið taki rækilega til í sínum ranni gagnvart kjaradeilu Eflingar og SA í ljósi þessarar niðurstöðu. Við krefjumst þess að Aðalsteinn Leifsson verði látinn segja sig samstundis frá deilunni. Við fögnum þessari niðurstöðu innilega,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í tilkynningu.

Rætt er við Sólveigu Önnu hér að neðan.

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður Eflingar, segir um fullnaðarsigur að ræða fyrir Eflingu. Ríkissáttasemjari hafi farið langt út fyrir sínar heimildir með því að krefja Eflingu um félagatal sitt. Hann segir niðurstöðu Landsréttar vel rökstudda og skýra. Dómararnir þrír hafi greinilega nýtt helgina vel til að kynna sér málið og sögu lagaákvæðanna.

Aðspurður hvaða áhrif þetta hafi á miðlunartillögu ríkissáttasemjara minnir hann á að Efling hafi vísað þeirri ákvörðun til héraðsdóms til að fá á hreint hvort hún væri lögmæt. Það hafi verið stóra málið hjá Eflingu að fá úr því skorið. Beiðni um flýtimeðferð hafi verið hafnað eftir niðurstöðu héraðsdóms um að Efling ætti að afhenda félagatalið.

Verkfallslota tvö á miðvikudaginn

Verkfall tæplega sjö hundruð starfsmanna á sjö hótelum Íslandshótela í Reykjavík hófst í síðustu viku. Á miðvikudaginn hefst svo verkfall olíubílstjóra og fleiri hótelstarfsmanna sem talið er að gæti haft mikil áhrif á aðgengi að bensíni á höfuðborgarsvæðinu.

Þá var tilkynnt í dag um að fram undan væri atkvæðagreiðsla meðal um 1650 félagsmanna Eflingar sem starfa á hótelum, við öryggisgæslu og við ræstingar. Það verkfall tæki gildi í næstu viku.

Þá virðist kominn á friður á milli Eflingar og Íslandshótela varðandi verkfallsvörslu sem stuggur hefur staðið um. Efling sinnir verkfallsvörslu án þess sem verkfallsvörðum sé fylgt eftir. Á sama tíma lofar Eflingar að ónáða ekki gesti á hótelunum.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði á Sprengisandi á Bylgjunni í gær engan tilgang með verkföllum Eflingar sem stæðu yfir á meðan niðurstaða í Landsrétti lægi ekki fyrir.

„Það eru engir samningafundir boðaðir. Ríkissáttasemjari boðaði samningafund í síðustu viku en Efling neitaði að mæta á þann fund. Þetta skiptir algeru höfuðmáli í þessari umræðu. Vegna þess að tilgangur og eðli verkfalla er til þes að knýja samningsaðila sinn til gerðar kjarasamnings en það eru engir fundir í þessari deilu. Það eina sem aðilar eru að bíða eftir Kristján er úrskurður Landsréttar þar sem Efling skaut áfram dómi héraðsdóms til Landsréttar og þegar að sá úrskurður liggur fyrir þá liggur fyrir hver verður framvinda þessarar vinnudeilu,“ sagði Halldór Benjamín. Nú liggur sú niðurstaða fyrir.

Uppfært klukkan 16:45

Fyrirsögn var breytt þar sem Aðalsteinn Leifsson segir ekki rétt haft eftir lögmanni Eflingar um að sáttasemjari hafi farið langt út fyrir sínar heimildir. Það komi skýrt fram í úrskurði Landsréttar.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Löng bið eftir bensíni hjá Costco

Svo virðist sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu séu byrjaðir að fylla á bíla sína í ljósi verkfalls olíubílstjóra sem hefst að óbreyttu á miðvikudag. Löng röð hefur verið í Costco í Kauptúni í Garðabæ í morgun eftir bensíni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×