Innlent

Munu ekki ó­­­náða gesti og öryggis­verðir fylgi ekki verk­­falls­vörðum

Atli Ísleifsson skrifar
Frá aðgerðum verkfallsvarða Eflingar á Fosshóteli Reykjavík í síðustu viku.
Frá aðgerðum verkfallsvarða Eflingar á Fosshóteli Reykjavík í síðustu viku. Vísir/Vilhelm

Forsvarsmenn Eflingar og Íslandshótela hafa náð samkomulagi um framkvæmd verkfallsvörslu á hótelum Íslandshótela.

Verkfall starfsmanna Eflingar á sjö hótelum Íslandshótela hófst á þriðjudaginn í síðustu viku..Kjaradeila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins er í algerum hnút og ekki hafa farið fram samningafundir í langan tíma.

Harðar ásakanir gengu manna í millum í síðustu viku þar sem formaður Eflingar sakaði lögmenn Samtaka atvinnulífsins um að hjálpa eigendum og yfirmönnum á Íslandshótelum að stunda verkfallsbrot. Forsvarsmenn Íslandshótela sögðu að um tilhæfulausar ásakanir væru að ræða og að gestir væru áreittir af forystufólki Eflingar.

Þá hefur lögregla mætt á sum hótelin og haft afskipti af ósáttum félagsmönnum Eflingar.

Samkomulagið nú felur meðal annars í sér að hóparnir séu ekki með gjallarhorn eða dreifimiða og muni ekki ónáða gesti. Öryggisverðir munu ekki fylgja hópum verkfallsvarða.

Í tilkynningu frá Eflingu segir að samkomulagið séu á þessa leið:

  • Tveir tveggja manna hópar verkfallsvarða heimsækja stærri hótel Íslandshótela í hverri heimsókn (Grand Hótel og Fosshótel Reykjavík). Hóparnir fara hvor í sínu lagi um húsnæði viðkomandi hótels.
  • Einn tveggja manna hópur heimsækir smærri hótelin í hverri heimsókn (Centrum, Saga, Barón, Lind, Rauðará).
  • Hóparnir eru ekki með gjallarhorn eða dreifimiða, og ónáða ekki gesti.
  • Aðgengi hópa að vinnurýmum hótelsins, þ.m.t. þvottahúsum, verður ekki hamlað. Ekki verður farið inn í eldhús (vegna heilbrigðisreglna) en dyr inn í eldhús verða opnaðar til að hægt sé að sjá inn.
  • Hópar gefa sig fram í móttöku hótels þegar þeir koma á vettvang en það á ekki að tefja upphaf verkfallsvörslu eftir að þeir koma á vettvang.
  • Ekki er gerð athugasemd við að einn starfsmaður hótelsins fylgi hópnum en öryggisverðir fylgja ekki hópunum.

Fram kemur að samkomulagið hafi náðst milli Eflingar og Íslandshótela í gegnum tölvupóst í gær og var afrit af öllum samskiptunum á netfang lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

Bensínið gæti klárast á fimmtu­dag

Forstjóri Skeljungs segir að bensín bensínstöðva gæti klárast strax á fimmtudag ef af verkfalli olíubílstjóra verður á miðvikudag, eins og virðist stefna í. Hann hefur þungar áhyggjur af stöðunni, alvarlegt ástand geti skapast á örfáum dögum.

Segir verk­föll Eflingar vera til­gangs­laus

Enn og aftur kom til orðaskipta milli lögreglu og verkfallsvarða Eflingar við Íslandshótel í gær. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir engan tilgang með verkföllum Eflingar. Hann bíður átekta eftir úrskurði Landsréttar, sem væntanlegur er á allra næstu dögum - á ögurstundu í kjaradeilunni.

Verk­fall er hafið á Ís­lands­hótelum

Verkföll eru hafin hjá Eflingarfélögum á Íslandshótelum. Tæplega þrjú hundruð starfsmenn  hótelanna lögðu niður störf klukkan tólf á hádegi og hafa þeir safnast saman í Iðnó.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×