Innlent

Flug­tak inni í há­skóla

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Sýndarveruleikagleraugu verða héðan í frá notuð í þjálfun flugmanna Icelandair. Búnaðurinn er mjög nákvæmur en með hjálp hans er hægt framkvæma nær allt sem hægt er að gera í flugstjórnarklefanum. Elísabet Inga, skutlaði nokkrum Íslendingum til Tenerife með hjálp gleraugnanna í dag.

Framadagar fóru fram í Háskóla Reykjavíkur í dag en markmið þeirra er að tengja saman háskóla við atvinnulífið í einum viðburði. Fjölmörg fyrirtæki kynntu sína starfsemi í skólanum í dag - þeirra á meðal Icelandair sem leyfði gestum að prufa sýndarveruleikagleraugu sem verða framvegis notuð í þjálfun flugmanna.

„Þetta er verkleg þjálfun sem fer með okkur yfir alls konar atriði og getur sett okkur inn í ýmsar aðstæður,“ segir Jenný María Unnarsdóttir, flugmaður hjá Icelandair.

Allt með það að markmiði að auka flugöryggi. Gleraugun eru mjög nákvæm en með hjálp þeirra kemst maður inn í flugstjórnarklefann með alla þá takka sem þar eru fyrir augum. Með hjálp gleraugnanna geta flugmenn æft sig í flugtaki, lendingu og öllu þar á milli.

„Það er líka hægt að tengja tvö gleraugu saman þannig að flugstjóri og flugmaður geta unnið saman í þessu. Svo getur þjálfarinn fylgst með á skjánum hvað fer fram. Þetta er rosalega raunverulegt, það er hægt að skoða hvert fólk horfir, hvaða köll fara fram og hitt og þetta.“

Jenný aðstoðar fréttamann sem hefur, líklegast sem betur fer, aldrei sest í flugmannssætið.sigurjón ólason

Og þá er ekkert að vanbúnaði nema að prufa. Fréttamaður ýtir á nokkra takka, fær leyfi til flugtaks og tekur á loft - líklegast að flytja alla þessa sólarþyrstu Íslendinga til Tenerife.

Er þetta bylting? 

„Já ég myndi segja það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×