Innlent

Lítur út fyrir að Daði verði sjálf­kjörinn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði og varaformaður Viðreisnar. 
Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði og varaformaður Viðreisnar.  Stöð 2

Allt lítur út fyrir að Daði Már Kristófersson verði sjálfkjörinn varaformaður Viðreisnar á komandi landsþingi flokksins. Daði Már hefur gegnt embættinu síðan í september árið 2020.

Landsþing Viðreisnar fer fram um helgina á Reykjavík Natura-hótelinu og verður kjörið í embætti eftir hádegi á laugardaginn. Líklegt þykir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Daði Már Kristófersson haldi embættum sínum sem formaður og varaformaður flokksins án mótframboðs. 

Gengið hefur á milli manna að bæði Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, og Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði, ætli að bjóða sig fram til varaformanns. Pawel staðfestir við fréttastofu að hann ætli ekki að bjóða sig fram en Jón Ingi segist ekki hafa fengið áskoranir um slíkt. Honum þyki það þó ánægjulegt að einhverjum detti nafn hans í hug í því samhengi.

„Ég hef ekki áform um að bjóða mig fram í æðstu forystu flokksins á þessu landsþingi. Þótt ég útiloki ekki að ég muni gera það einhvern tímann í framtíðinni,“ segir í skriflegu svari Pawels.

Daði Már hefur gegnt embætti varaformanns síðan árið 2020 þegar hann sigraði Ágúst Smára Beaumont í kosningu á landsþingi flokksins. Á sama þingi var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir endurkjörin án mótframboðs en hún hefur gegnt embætti formanns flokksins síðan árið 2017 eftir að Benedikt Jóhannesson steig til hliðar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×