Innlent

Lagningu Vest­manna­eyja­strengs flýtt frá 2027 til 2025

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flýta á lagningu Vestmannaeyjastrengjar um tvö ár.
Flýta á lagningu Vestmannaeyjastrengjar um tvö ár. Vísir/Vilhelm

Ákveðið hefur verið að flýta lagningu nýs Vestmannaeyjastrengjar og búið að senda leyfisumsókn þess efnis til Orkustofnunar. Áætlað er að leggja strenginn sumarið 2025 í stað 2027 og verður hann 66 kV og sambærilegur við Vestmannaeyjalínu.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Landsneti.

Þar segir einnig að undirbúningur fyrir viðgerð Vestmannaeyjalínu, sem bilaði fyrr í mánuðinum, sé í fullum gangi.

„Framkvæmd hefur verið greining á samfélagslegum kostnaði við það að hafa eingöngu einn sæstreng til Vestmannaeyja sem annað getur bæði forgangs- og skerðanlegri orkuþörf í Eyjum. Greiningin, sem unnin var af verkfræðistofunni Eflu í árslok 2022, sýndi að samkvæmt áhættumati er væntur samfélagslegur kostnaður við að hafa ekki varatengingu sem annað getur allri orkuþörf í Vestmannaeyjum nálægt 100 milljónum árlega,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að ákvörðunin um að flýta lagningu Vestmannaeyjastrengs komi sér vel við að ná fram samlegðaráhrifum í framkvæmdum Landsnets en lagning sæstrengjar yfir Arnarfjörð sé einnig á framkvæmdaáætlun.

„Með því að leggja báða þessa sæstrengi á sama tíma má spara kostnað við strenglagningarskip sem þarf að fá til landsins í verkið og getur sparnaðurinn hlaupið á hundruðum milljóna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×