Vísir hefur fjallað um málið en ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan málið kom upp. Fórnarlambið er rúmlega fertugur karlmaður.
Í ákærunni segir að ákærði hafi komið aftan að manninum þar sem hann stóð utandyra efst í tröppum Moe's bar. Hann hafi fyrirvaralaust sparkað í bak hans þannig að hann féll niður 23 steinsteyptar tröppur. Við það hlaut hann höfuðkúpubrot, dreifðar blæðingar í og við heila beggja vegna, alvarlegan og varanlegan heilaskaða.
Heilaskaðinn felur í sér hugræna skerðingu, málftruflanir og takmarkaðan málskilning.
Fram kom í gæsluvarðhaldskröfu lögreglu í janúar að enn hefði ekki reynst unnt að ræða við manninn sem slasaðist. Myndbandsupptaka úr öryggismyndavél er lykilgagn í málinu þar sem ákærði sést sparka í manninn.