Innlent

Hæsti­réttur hafnar beiðni að­gerðar­sinna

Atli Ísleifsson skrifar
Elínborg Harpa í Landsrétti í nóvember síðastliðinn.
Elínborg Harpa í Landsrétti í nóvember síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Elínborgar Hörpu- og Önundarburs, aðgerðarsinna og baráttukvár fyrir réttindum flóttafólks, um að taka fyrir dóm Landsréttar frá í nóvember síðastliðinn þar sem Elínborg var dæmt í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þrjú brot.

Landsréttur staðfesti þar dóm héraðsdóms, en Elínborg var sakfellt fyrir brot gegn valdstjórninni og fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.

Elínborg sagði beiðni um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar lúta að atriðum sem hefðu verulega almenna þýðingu og af öðrum ástæðum væru mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um. Ágreiningur málsins varði mikilvæg réttindi sem tryggð séu í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, meðal annars að því er varðar heimildir stjórnvalda til afskipta af friðsamlegum mótmælum.

Sömuleiðis vildi Elínborg meina að mikilvægt væri að fá túlkun Hæstaréttar á lögreglulögum, meðal annars varðandi sjónarmið um mat á því hvort takmörkun mótamælaaðgerða teljist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Þá varði málið mikla og mikilvæga hagsmuni Elínborgar, auk þess að hán taldi dóm Landsréttar vera bersýnilega rangan að efni til þar sem hann gengi gegn dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins.

Hæstiréttur ekki á sama máli

Þessu hafnaði Hæstiréttur og segir að að virtum gögnum málsins verði ekki séð að málið lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar. 

Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggi jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat yrði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti. Beiðninni hafi því verið því hafnað.

Sakfellt vegna þriggja brota

Í fyrsta lagi var Elínborg ákært fyrir brot gegn valdstjórninni og gert að sök að hafa sparkað þrisvar í fætur lögreglumanns á mótmælum fyrir utan Alþingishúsið þann 11. mars 2019. Sama dag kom til átaka milli mótmælenda og lögreglu á Austurvelli og beitti lögregla piparúða.

Elínborg var einnig sakfellt fyrir brot gegn 19. grein lögreglulaga sem kveður á um skyldu til að fylgja fyrirmælum lögreglunnar þegar Elínborg var beðið um að færa sig frá dyrum Alþingishússins þennan sama dag.

Í þriðja lagi var Elínborg sakfellt fyrir að hafa ekki fylgt fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa anddyri dómsmálaráðuneytisins þann 5. apríl 2019 þar sem hán tók þátt í setuverkfalli og fyrir að hafa ekki yfirgefið vettvang og haldið för sinni áfram þegar lögregla hafði afskipti af almennum borgara við verslun 10-11 í Austurstræti þann 29. júlí 2019.


Tengdar fréttir

Dómurinn yfir Elínborgu Hörpu stendur

Tveggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdómur yfir Elínborgu Hörpu- og Önundarbur aðgerðarsinna og baráttukvár fyrir réttindum flóttafólks skal standa. Þetta er niðurstaða Landsréttar sem kvað upp dóm sinn í dag. Elínborg var ákært fyrir brot gegn valdstjórninni og fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.