Lífið

Draga til­nefningu tólf ára barns til Razzi­e-verð­launa til baka

Atli Ísleifsson skrifar
Ryan Kiera Armstrong var tilnefnd fyrir frammistöðu sína í myndinni Firestarter sem byggir á sögu Stephen King.
Ryan Kiera Armstrong var tilnefnd fyrir frammistöðu sína í myndinni Firestarter sem byggir á sögu Stephen King. Getty

Aðstandendur Razzie-verðlaunanna hafa ákveðið að draga tilnefningu hinnar tólf ára Ryan Kiera Armstrong til verðlaunanna til baka. Aðstandendur verðlaunanna hafa sætt mikilli gagnrýni vegna ákvörðunarinnar að tilnefna stúlkuna og hafa þeir verið sakaðir um að leggja barn í einelti. Þeir hafa nú beðist afsökunar á málinu.

Armstrong er í hópi fimm sem tilnefndar eru sem „versta leikkonan“ vegna frammistöðu sinnar í hryllingsmyndinni Firestarter. Um er að ræða endurgerð á kvikmynd frá árinu 1984 sem skartaði Drew Barrymore í aðalhlutverki og byggði á sögu Stephen King.

Skipuleggjendur Razzie-verðlaunanna lýsa verðlaununum sem „ljóta frænda Óskarsverðlaunanna“, þar sem þeir „verðlauna“ það sem þeir telja verstu myndir ársins sem og verstu frammistöðu einstakra leikara í kvikmyndum ársins. Verðlaunin verða afhent 11. mars, degi á undan Óskarsverðlaunahátíðinni.

Margir gagnrýndu forsvarsmenn Razzie-verðlaunanna harðlega vegna tilnefningarinnar. „Ef þú hélt að Razzie-verðlaunin myndu ákveða að vera ekki eins illgjörn að þessu sinni þá skaltu hugsa þig aftur um, þar sem í hópi tilnefndra í ár er Ryan Kiera Armstrong fyrir Firestarter, sem er tólf ára gömul,“ segir í grein Variety.

Ritstjóri menningardeildar Independent segir að tilnefningin ýti undir að réttast sé að leggja af verðlaunahátíðina.

Aðrar leikkonur sem tilnefndar voru í flokknum í ár voru Bryce Dallas Howard fyrir Jurassic Park: Dominion, Diane Keaton fyrir Mack & Rita, Kaya Scodelario fyrir The King’s Daughter og Alicia Silverstone fyrir The Requin.

Hin tólf ára Armstrong hefur leikið í átta kvikmyndum á ferlinum og þremur sjónvarpsþáttaröðum, meðal annars American Horror Story.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.