Innlent

Greiðslur til einka­rekinna fyrir­tækja í heil­brigðis­þjónustu stór­aukist síðustu ár

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ráðherra segir ríkið hafa takmarkaða möguleika til að setja þak á arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu.
Ráðherra segir ríkið hafa takmarkaða möguleika til að setja þak á arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu. Vísir/Vilhelm

Greiðslur ríkisins til einkarekinna fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu jukust úr 2,2 milljörðum króna árið 2014 í 10,8 milljarða króna árið 2021. Sóltún, Læknisfræðileg myndgreining, Heilsugæslan Höfða, Læknavaktin og Heimilislæknastöðin fengu hæstu upphæðirnar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari heilbrigðisráherra við fyrirspurn Ingu Bjarkar Margrétar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, um greiðslur til fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.

Svarið er afmarkað við þau fyrirtæki sem ber að birta ársreikninga, þar sem einnig var óskað eftir upplýsingum um arðgreiðslur umræddra fyrirtækja. Þær upplýsingar er hins vegar ekki að finna í svarinu, þar sem trúnaður ríkir um arðgreiðslur einstakra fyrirtækja.

Samkvæmt samantekt greiddu 24 fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu út arð árið 2021, samtals 349 milljónir króna. Er þetta töluvert lægri upphæð en árin á undan, þegar 29 fyrirtæki greiddu 1,3 milljarð króna í arð árið 2020 og 33 fyrirtæki greiddu 1,4 milljarð króna í arð árið 2019.

Þess ber að geta að svör ráðherra ná ekki til hinna fjölmörgu þjónustuveitenda í heilbrigðisþjónustu sem reka fyrirtæki sín sem sameignarfélög eða samlagsfélög.

Inga Björk spurði einnig að því hvort ráðherra ætlaði að beita sér fyrir því að takmarka arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu.

„Mikilvægt er að sjúkratryggðum sé tryggð heilbrigðisþjónusta sem er bæði rekstrar- og þjóðhagslega hagkvæm og af eins miklum gæðum og hægt er á hverjum tíma. Eins og vikið er að hér að framan er að finna arðgreiðslubann í einni tegund samninga sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert. Að semja um slíkt byggist á vilja samningsaðila til að gangast undir slík skilyrði,“ segir í svari ráðherra.

„Jafnframt er rétt að benda á að Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir ýmsa heilbrigðisþjónustu þar sem samningar eru ekki fyrirliggjandi, þ.e. greiða skv. gjaldskrá og reglugerð, og í þeim tilvikum hefur ríkið ekki heimild til að takmarka arðgreiðslur.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.