Innlent

Hálfs metra landris í Öskju

Samúel Karl Ólason skrifar
Askja í forgrunni. Fjær sjást Herðubreið og Herðubreiðartögl og lengst til hægri sést í Upptyppinga.
Askja í forgrunni. Fjær sjást Herðubreið og Herðubreiðartögl og lengst til hægri sést í Upptyppinga. Mynd/Stöð 2.

GPS mælingar sína að land í Öskju hefur risið um hálfan metra frá því mælingar hófust í ágúst 2021. Landrisið er talið vera vegna kvikusöfnunar á litlu dýpi í eldstöðinni.

Þetta kemur fram á Facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands. Þar segir einnig að landrisið hafi verið merkilega stöðugt en lítil skjálftavirkni hafi greinst samhliða því.

Þó hafi mikil skjálftahrina í Herðubreið í lok síðasta árs mögulega tengst landrisinu og spennubreytingum vegna þess.

Kortið í færslunni hér að neðan sýnir dreifingu skjálfta í Dyngjufjöllum síðasta mánuðinn.

Þann 9. september 2021 lýstu Almannavarnir yfir óvissustigi vegna landriss í Öskju og er það enn í gildi. Þá mældist landrisið rúmir sjö sentímetrar á nokkrum vikum og þótti það mikið.

Sjá einnig: Fólk spennt fyrir Öskju­gosi sem lætur bíða eftir sér

Líklegasta skýringin var talin sú að kvika væri að safnast fyrir á tveggja til þriggja kílómetra dýpi. Sérfræðingar sögðu þá ólíklegt að von væri á eldgosi á næstu vikum eða mánuðum en að landrisið gæti verið upphafið að langri atburðarás sem endi með gosi. Líklegra væri þó að kvikan myndi aldrei ná á yfirborðið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×