Innlent

Borgin vinnur á hraða snigilsins

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Helga segir að fólk hafi jafnvel flutt úr Fossvoginum vegna húsnæðisvandræða skólans.
Helga segir að fólk hafi jafnvel flutt úr Fossvoginum vegna húsnæðisvandræða skólans. Vísir/Ívar

Móðir barns í Fossvogsskóla segir foreldra langþreytta á ítrekuðum vandamálum sem komið hafa upp í skólanum síðustu misseri, nú síðast þegar gríðarlegur leki varð í glænýju þaki skólans. Borgin vinni á hraða snigilsins, sem sé óásættanlegt.

Fossvogsskóli hefur verið talsvert í umræðunni undanfarin ár vegna mygluvandræða en þakið á húsinu lak hressilega í gær og börn voru send heim. Farið verður í það eftir helgi að komast að því hvað fór úrskeiðis, en þakið er mjög nýlegt. Stefnt er að því að kennsla hefjist aftur á mánudagsmorgun.

Helga Dögg Björgvinsdóttir, móðir barns í skólanum segir svona vandræði hætt að koma á óvart.

„Það sem gerðist í gær, maður kippti sér óvenjulítið upp við þetta af því að það einhvernvegin kemur manni ekkert á óvart lengur í þessu máli. Það er svo margt búið að ganga á undanfarin ár.“

„Ótrúlega mikið rót búið að vera hjá börnunum. Minn er í sjötta bekk og ég held það hafi verið í fyrsta bekk sem það var heill vetur hjá honum í Fossvogsskóla og annars er þetta búið að vera vesen.“

Helga gagnrýnir vinnuhraða borgarinnar.

„Ég var í skólaráði þegar að myglumálið kom upp og ég sat ófáa fundina með þessum mönnum frá borginni. Það gerist allt á hraða snigilsins þarna virðist vera.“

Fólk hefur jafnvel flutt úr hverfinu.

„Ég veit dæmi um fólk sem að flutti. Bara hreinlega flutti. Þau áttu barn sem var viðkvæmt fyrir myglunni og þau bara fluttu. Svo eru börn farin í aðra skóla líka.“


Tengdar fréttir

Þetta á ekki að gerast

Skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg segir mikinn leka í glænýju þaki Fossvogsskóla mikil vonbrigði. Málið verði skoðað strax eftir helgi. Reykjavíkurborg er þannig enn og aftur í vandræðum með húsnæði skólans en á honum voru nýlega gerðar gagngerar endurbætur vegna myglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×