Fótbolti

Fimm­tán stig dregin af Juventus fyrir brot á fé­lags­skipta­reglum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stjórn Juventus sagði af sér í nóvember á seinasta ári í tengslum við málið.
Stjórn Juventus sagði af sér í nóvember á seinasta ári í tengslum við málið. Daniele Badolato - Juventus FC/Juventus FC via Getty Images

Fimmtán stig hafa verið dregin af ítalska stórliðinu Juventus fyrir alvarleg brot á félagsskiptareglum ítölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ítalska knattspyrnusambandinu, en Juventus var til rannsóknar vegna ásakana um að hagræða bókhaldi sínu og faldar greiðslur til leikmanna.

Refsingin er gefin út eftir að stjórn félagsins eins og hún lagði sig sagði af sér í nóvember á síðasta ári. Þá hefur Andrea Agnelli, fyrrverandi forseti Juventus, verið dæmdur í tveggja ára bann af ítalska knattspyrnusambandinu. Juventus hefur neitað ásökunum og búist er við að félagið áfrýi ákvörðuninni.

Í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í kjölfar þess að stjórnin sagði af sér kom fram að ástæða afsagnarinnar væari „talin vera í þágu félagslegra hagsmuna.“

Fabio Paratici, fyrrum yfirmaður íþróttamála félagsins og núverandi yfirmaður knattspyrnumála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham, hefur einnig verið dæmdur í 30 mánaða bann.

Félagið var upphaflega sýknað af ásökununum í apríl 2022, en málið var tekið upp að nýju í desember sama ár. Rannsóknin snéri að tekjum af skráningarrétti leikmanna á árunum 2019 til 2021. Félagið bað þá leikmenn um að gefa eftir fjögurra mánaða laun til að hjálpa rekstri félagsins í kórónuveirufaraldrinum, en í raun gáfu þeir aðeins eftir eins mánaðar laun. Juventus gat þá borgað restina svart og þannig sloppið við að greiða skatta.

Juventus sat í þriðja sæti deildarinnar áður en stigin voru dregin af þeim. Liðið var með 37 stig, tíu stigum á eftir toppliði Napoli, en situr nú í tíunda sæti með aðeins 22 stig. Næsti deildarleikur Juventus er á morgun gegn Atalanta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×