Innlent

Ragnar Þór vill leiða VR áfram

Atli Ísleifsson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson var endurkjörinn formaður VR bæði árið 2019 og 2021. Kosningar fara fram innan félagsins í þarnæsta mánuði.
Ragnar Þór Ingólfsson var endurkjörinn formaður VR bæði árið 2019 og 2021. Kosningar fara fram innan félagsins í þarnæsta mánuði. Vísir/Vilhelm

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur tilkynnt að hann vilji leiða félagið áfram en kosningar fara fram í félaginu í mars næstkomandi.

Ragnar Þór greinir frá ákvörðun sinni á Facebook, en hann hefur leitt félagið frá árinu 2017. 

Í færslu sinni segir hann að þrátt fyrir neikveiða umræðu um verkalýðshreyfinguna standi VR ákaflega vel. Starf stjórnar og skrifstofu VR hafi verið framúrskarandi gott og einkennst af mikilli samheldni og virðingu.

„Á síðasta ári fór félagsaðild í fyrsta skipti yfir 40 þúsund sem gerir félagið að lang stærsta stéttarfélagi landsins. Við munum halda áfram þeirri góðu vinnu við breytingar á félaginu til að koma betur til móts við breytingar á vinnumarkaði og ólíkar þarfir ólíkra hópa innan okkar raða. Meira um það síðar.

Það hefur farið mikil orka í innbyrðis átök á vettvangi ASÍ og er hreyfingin þverklofin hvað það varðar. Ég trúi því að hreyfingunni beri gæfa til að vinna sig í gegnum þessa stöðu á komandi framhaldsþingi ASÍ og mun ég leggja mitt af mörkum svo það megi verða.

Stjórnarstarfið í VR hefur gengið afskaplega vel. Að vinna í slíku umhverfi þar sem þú ert alltaf með vindinn í bakið eru ekki bara forréttindi heldur gerir það okkur kleift að vinna mun fleiri hagsmunamálum okkar brautargengi. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Við erum liðsheild og allir leggja sitt af mörkum í að vinna sem best fyrir félagsfólkið okkar. Rekstur og staða félagsins hefur aldrei verið sterkari og starfsandi vart verið betri í þau 14 ár sem ég hef setið í stjórn og sem formaður félagsins,“ segir Ragnar Þór.

Endurkjörinn 2019 og 2021

Ragnar Þór var kjörinn formaður VR árið 2017 þegar hann hafði betur gegn Ólafíu B. Rafnsdóttur, þáverandi formanni. Hlaut hann þá 63 prósent greiddra atkvæða. Hann var sjálfkjörinn árið 2019 en Helga Guðrún Jónasdóttir bauð sig fram gegn Ragnari Þór í mars 2021 og hlaut Ragnari Þór þá 63 prósent atkvæða.

Hann bauð sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands í haust, en dró síðar framboð sitt til baka.

Formaðurinn segir áherslur hans verði sem fyrr segir að halda áfram að bæta kjör og réttindi félagsfólks VR og berjast fyrir réttlátara samfélagi og veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald.

„Við höfum nú þegar hafið vinnu við gerð langtíma kjarasamnings sem byrjaði á viðræðum um starfsmenntamálin 19. janúar. Við munum hefja viðræður um stytttingu vinnuvikunnar, fjölgun orlofsdaga og fjarvinnu 14.mars næstkomandi og svo koll af kolli.

Ég mun einnig leggja mikla áherslu á jafnréttismálin og áframhaldandi gott samstarf við önnur hagsmunasamtök í almannaþágu,“ segir Ragnar Þór.

Húsnæðismálin stóra málið

Ragnar Þór segir að stóru málin framundan séu sem fyrr húsnæðismálin. Þar beri helst að nefna aukna leiguvernd og aðgerðir vegna stöðu þeirra sem eru með stökkbreytt húsnæðislán. Sömuleiðis áframhaldandi uppbygging Bjargs og Blævar.

„VR er að hefja framkvæmdir við byggingu leiguíbúða fyrir félagsfólk VR í gegnum Blæ, sem er nýtt húsnæðisfélag sem er ætlað til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði án tekjumarka. Hugmyndafræðin í kringum Blæ er að höfða til fjárfestinga lífeyrissjóða inn á húsnæðismarkað og hef ég leitt það verkefni á vettvangi hreyfingarinnar sem og frekari uppbyggingu Bjargs fyrir tekjulága.

Ég mun halda áfram að berjast gegn spillingu í íslensku samfélagi en fyrst og fremst einbeita mér að því frábæra starfi sem stjórn og starfsfólk VR hefur unnið á vettvangi réttlætis og kjarabaráttunnar.

Ég er ákaflega þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem ég hef fengið frá ykkur í gegnum árin í þessari vegferð minni á vettvangi réttlætisbaráttunnar og vona ég að svo verði áfram,“ segir Ragnar Þór.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×