Fótbolti

Nottingham Forest í undanúrslit eftir sigur í vítakeppni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dean Henderson fagnar eftir að hafa varið í vítaspyrnukeppninni í kvöld.
Dean Henderson fagnar eftir að hafa varið í vítaspyrnukeppninni í kvöld. Vísir/Getty

Nottingham Forest er komið í undanúrslit enska deildabikarsins eftir sigur á Wolves í vítaspyrnukeppni. Dean Henderson varði tvær vítaspyrnur Úlfanna.

Bæði lið stilltu upp sterkum liðum í kvöld enda ekki þau líklegustu til að lyfta málmi á tímabilinu. Willy Boly kom Nottingham Forest yfir á átjándu mínútu þegar hann skoraði gegn sínum gömlu félögum.

Staðan í hálfleik var 1-0 heimamönnum í vil en á 64.mínútu jafnaði Raul Jimenez metin fyrir Wolves. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og þá var farið beint í vítaspyrnukeppni.

Fyrstu tvær spyrnurnar í vítakeppninni fóru forgörðum. Jose Sa byrjaði á að verja frá Sam Surridge en Dean Henderson svaraði með því að verja frá Ruben Neves.

Bæði lið skoruðu síðan úr sínum spyrnum þar til komið var að fimmtu og síðustu umferðinni. Þá byrjaði Jack Colback á því að skora fyrir Forest en Joseph Hodge lét Dean Henderson síðan verja frá sér og heimamenn fögnuðu sigri.

Þegar dregið verður til undanúrslita verður Nottingham Forest í pottinum ásamt Southampton, Newcastle og Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×