Lífið

„Alltaf verið dauð­hræddur við níu til fimm pælinguna“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Tómas Geir Howser varð frægur sem Tilfinninga-Tómas í Gettu betur árið 2015. Hann er orðinn leikari í dag.
Tómas Geir Howser varð frægur sem Tilfinninga-Tómas í Gettu betur árið 2015. Hann er orðinn leikari í dag. Stöð 2

Tómas Geir Howser Harðarson vann hug og hjörtu landsmanna með tilfinningaríkum fagnaðarlátum í Gettu betur árið 2015 og hlaut viðurnefnið Tilfinninga-Tómas. 

Í dag hefur hann lokið leiklistarnámi frá virtum skóla í Bretlandi og segist ætla að leggja allt í sölurnar til að ná árangri í leiklist. Tómas er leikaramenntaður frá Guildford School of Acting, einum virtasta leiklistarskóla í Bretlandi. Viðurnefnið Tilfinninga-Tómas sem festist við hann eftir þátttöku í Gettu Betur árið 2015 þegar hann keppti fyrir hönd Fjölbrautaskólans í Garðabæ.

Tómas ákvað ungur að eftir menntaskóla ætlaði hann að læra leikarann. Hann sótti prufur í níu leiklistarskólum í Bretlandi, komst inn í tvo en ákvað að endingu að velja Guildford school of acting sem er sem fyrr segir einn af virtustu leiklistarskólum þar í landi. Á þriðja ári í náminu ákvað hann að flytja ekki heim til Íslands í bráð enda vill hann reyna fyrir sér úti og lifa og hrærast í harkinu sem fylgir því að reyna fyrir sér sem listamaður hið ytra. 

Ísland í dag ræddi við Tómas í London. Viðtalið má heyra í spilaranum hér fyrir neðan. 

Dagvinna heillaði ekki

Leiklistarnámið var að sögn Tómasar krefjandi og tilfinningalega erfitt. Hann segir að leiklist snúi að einhverju leiti um hæfileika en að miklu leyti geti flestir lært fagið.

„Það er einhver gömul tugga að annað hvort sért þú með þetta eða ekki,“ útskýrir Tómas.

„Hæfileikar gefa þér rosalega lítið ef þú leggur ekki vinnuna á móti.“

Já námið er allskonar og starfið líka en Tómas óttast ekki óvissuna sem fylgt getur listamannalífinu.

„Það er ástæðan fyrir því að ég valdi þetta. Ég hef alltaf verið dauðhræddur við níu til fimm pælinguna.“

Fékk góð ráð frá afa

Atvinnuöryggið er þó lítið og Tómas þarf því stöðugt að halda sér á tánum, ganga að fólki í bransanum, taka upp símann, kynna sig og sýna hvað í honum býr.

„Hæ ég heiti tómas, ég er leikari. Viltu vinna með mér.“

Tómasi finnst sjarmerandi að lifa og hrærast í óvissunni í London. Það hefur þó lítið verið um hark hjá Tómasi sem er á góðu róli og heppinn með tækifæri. Í sumar og haust mátti finna hann í kvikmyndahúsum hér á landi þegar myndin Þrot var í sýningu. Þá fékk hann strax boð um verkefni eftir útskrift og í haust tók hann þátt í barnaleikriti sem ferðaðist um Kent svæðið í London.

„Ég hef aldrei áður verið í barnaleikriti. Afi minn er leikari og hefur verið mikið í barnaleikritum.“

Afi hans er Magnús Ólafsson sem þekktur er sem bæjarstjórinn í Latabæ og karakterinn „Bjössi bolla“ sem flestir Íslendingar kannast við.

„Hann gaf mér fullt af tækjum og tólum, hvað maður getur gert í barnaleikritum. Það var ótrúlega gaman.“ 

Alltaf opinn og einlægur

Tómas á því ekki langt í að sækja hæfileikana. Til að bæta ofan á þá er pabbi Tómasar íþróttafréttamaðurinn Hörður Magnússon sem slegið hefur í gegn sem lýsandi. Tómas á því ekki langt að sækja keppnisskapið sem skein i gegn í þátttöku hans í Gettu betur á sínum tíma þar sem Tilfinninga-Tómas varð til árið 2015.

„Ég bjóst einhvern veginn við því að hann myndi endast í svona viku.“

Sjö árum síðar man fólk þó ennþá vel eftir þessu og kallar hann Tilfinninga-Tómas þegar hann kemur til landsins.

„Ég er alinn upp við að vera mjög opinn tilfinningalega og „vulnerable“ og það hjálpar mér klárlega í leiklistinni að geta verið opinn og einlægur sem ég reyni að vera. Tilfinninga-Tómas á alveg vel við.“


Tengdar fréttir

Tilfinninga-Tómas djúpt snortinn eftir bókagjöf

Tómas fékk óvænta gjöf frá barnabókahöfundinum Guðrúnu Helgadóttir. Guðrún hreifst af skeleggri frammistöða Tómasar í þættinum Útsvar seinastliðin föstudag.

#TilfinningaTómas trendaði á Twitter

Tómas Geir Howser Harðarson, einn liðsmanna Gettu betur-liðs Fjölbrautaskólans í Garðabæ, vakti athygli fyrr í kvöld líkt og endranær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×