Lífið

Tilfinninga-Tómas djúpt snortinn eftir bókagjöf

Anton Egilsson skrifar
Tómas hefur mikið dálæti á Guðrúnu Helgadóttir.
Tómas hefur mikið dálæti á Guðrúnu Helgadóttir. Vísir/GVA/Pjetur
„Fékk í dag gjöf frá mínum uppáhalds barnabókahöfundi. Það var bókaþríleikurinn: Sitji Guðs Englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni.

Svona byrjar færsla sem Tómas Geir Howser Harðarson, oft nefndur „Tilfinninga-Tómas“, birti á Facebook síðu sinni í kvöld.  Það var rithöfundurinn Guðrun Helgadóttir sem færði Tómasi gjöfina en hann segist í færslu sinni vera djúpt snortinn vegna gjafarinnar. Ástæðuna fyrir hinni óvæntu bókagjöf skrifaði hún inn í bókina.

„Þessa bók fær Tómas Howser fyrir að gleðja gamlan Gaflara með fallegri framkomu í Útsvari á föstudaginn. Bestu kveðjur frá Guðrúnu Helgadóttur og englunum öllum."

Tómas ber Guðrúnu miklar þakkir fyrir gjöfina í færslu sinni og segist ætla að varðveita hana vel. Þá ætli hann að lesa hana fyrir börnin sín.





Skilaboð Guðrúnar til Tómasar sem hún skrifaði inn í bókina.Mynd: Tómas Geir Howser Harðarson
Er mikill aðdáandi Guðrúnar

Í samtali við fréttastofu sagði Tómas að það hafi verið barnabarn Guðrúnar sem kom færandi hendi með bókagjöfina til hans í tíma í skólanum en þau eru saman í kvikmyndafræði í háskólanum. Hann hafi ekki enn hitt Guðrúnu í eigin persónu en þau hafa þó talað saman í síma.

„Ég hef ekki hitt hana en ég hef hins vegar talað við hana í gegnum síma. Hún er alveg mögnuð kona og það var mikill heiður að fá að tala við hana.“

Tómas hefur mikið dálæti á Guðrúnu og hennar verkum. En hver skyldi vera eftirlætis bók hans eftir hana ?    

„Ég myndi segja að það væri bókin Páll Vilhjálmsson. Það er bók sem ég las aftur og aftur þegar ég var lítill” sagði Tómas léttur í bragði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×