Erlent

Heitir því að draga „skemmdar­varga og fas­ista“ til á­byrgðar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lula var ómyrkur í máli þegar hann ræddi um árásina á opinberar byggingar í Brasilíu, höfuðborg Brasilíu.
Lula var ómyrkur í máli þegar hann ræddi um árásina á opinberar byggingar í Brasilíu, höfuðborg Brasilíu. Horacio Villalobos/Getty

Forseti Brasilíu hefur fordæmt múginn sem réðst inn í opinberar byggingar í höfuðborg landsins í kvöld. Hann heitir því að þeir sem eiga hlut að máli, sem hann kallar „skemmdarvarga og fasista,“ verði dregnir til ábyrgðar. 

Forsetinn, Luiz Inácio Lula da Silva, oftast þekktur sem Lula, sagði ekkert fordæmi fyrir atburðum dagsins. Múgurinn réðst inn í þinghúsið, hæstarétt Brasilíu og umkringdi forsetahöllina. Um var að ræða stuðningsmenn Jairs Bolsonaro, fyrrverandi forseta Brasilíu, sem laut í lægra haldi fyrir Lula í kosningum síðastliðið haust.

Stuðningsmenn Bolsonaros hafa ítrekað neitað að viðurkenna sigur Lula í kosningunum og telja brögð hafa verið í tafli, án þess að sýnt hafi verið fram á slíkt.

Múgnum var mætt með táragasi en lögreglu tókst þrátt fyrir það ekki að koma í veg fyrir að fólk kæmist inn í byggingarnar, en hefur síðan náð stjórn á aðstæðum.

Gagnrýndi lögreglu

Lula kallaði fólkið sem réðst inn í „byggingarnar skemmdarvarga og fasista“ og hét því að draga það til ábyrgðar. Þá var hann einnig óánægður með vinnubrögð lögreglunnar.

„Það sést vel á myndum að [lögreglumenn] beina fólki inn í Praca dos Tres Poderes,“ sem er byggingin sem um ræðir. Í myndböndum frá Brasilíu má sjá einhverja lögreglumannanna taka myndir af sér og hlæja með mótmælendum.

„Við munum finna út hver stendur að baki skemmdarvörgunum og þeir munu fá að finna fyrir lagalegum afleiðingum þessa,“ hefur BBC eftir Lula. 

Lögregla virðist nú hafa náð stjórn á aðstæðum í byggingunum en til mikilla átaka kom milli múgsins og einhverra úr liði lögreglu. Þá var ráðist á slökkviliðsmenn auk þess sem rúður þinghússins voru brotnar og mótmælendur brutu sér leið inn í þingsalinn sjálfan, þar sem þeir létu öllum illum látum. Fjöldi fólks hefur verið handtekinn, en þó liggur ekki fyrir hversu margir. 

Lula er ekki staddur í höfuðborginni sem stendur, heldur er hann í São Paulo í suðurhluta Brasilíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×