Erlent

Karl­maður á þrí­tugs­aldri hand­tekinn í tengslum við dauða tveggja ung­lings­stúlkna

Árni Sæberg skrifar
Karlmaður er í haldi lögreglu í tengslum við málið. Myndin er úr safni.
Karlmaður er í haldi lögreglu í tengslum við málið. Myndin er úr safni. EPA-EFE/Stian Lysberg

Tvær stúlkur á táningsaldri fundust látnar í heimahúsi í Spydeberg í Noregi í nótt. Sú þriðja var flutt á sjúkrahús og karlmaður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn í tengslum við málið.

Lögreglunni í Spydeberg barst tilkynning úr heimahúsi um að tvær stúlkur hefðu hugsanlega innbyrt of stóran skammt fíkniefna. Þegar lögreglu og sjúkralið bar að garði lágu stúlkurnar líflausar inni í húsinu.

Endurlífgun var reynd á staðnum en bar ekki árangur, að því er segir í fréttatilkynningu lögreglunnar. NRK greinir frá.

Lögreglustjórinn Lars Reinholdt-Østbye segir í samtali við NRK að þriðja stúlkan hafi verið flutt á sjúkrahús og að grunur sé um að hún hafi einnig tekið og stóran skammt fíkniefna.

Kærður fyrir að koma stúlkunum ekki til bjargar 

Reinholdt-Østbye segir einn karlmann á þrítugsaldri hafa verið á heimilinu auk stúlknanna þriggja. Hann sé í haldi lögreglu og hafi verið kærður, til að byrja með, fyrir að koma stúlkunum ekki til bjargar. Hann verði yfirheyrður í dag.

Þá segir hann að vonir standi til að unnt verði að taka skýrslu af þriðju stúlkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×