Fótbolti

Mark Sverris Inga tryggði PAOK góðan sigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Samherjar Sverris Inga fagna marki hans í kvöld.
Samherjar Sverris Inga fagna marki hans í kvöld. Twitter-síða PAOK

Sverrir Ingi Ingason var hetja gríska liðsins PAOK í kvöld en hann skoraði eina markið í 1-0 sigri liðsins gegn Aris Thessaloniki. PAOK er í fjórða sæti grísku deildarinnar.

Fyrir leikinn í kvöld var PAOK í fjórða sætinu, þremur stigum á eftir stórliði Olympiacos en Panathinaikos er efst og með ágæta forystu á toppnum.

Sverrir Ingi var í byrjunarliði PAOK og reyndist hetja liðsins í kvöld því hann skoraði eina markið í 1-0 sigri. Markið kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks en myndbandsdómgæslu þurfti til að skera úr um hvort markið stæði. Fyrr í leiknum hafði Stefan Schwab misnotað vítaspyrnu fyrir PAOK.

Aris tókst ekki að jafna í síðari hálfleiknum og Sverrir Ingi og félagar gátu því fagnað góðum sigri. Þeir jafna þar með Olympiacos að stigum í 3.-4.sæti deildarinnar en eru tíu stigum á eftir toppliði Panathinaikos.

Sverrir Ingi gekk til liðs við PAOK árið 2019 og hefur leikið rúmlega níutíu leiki fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×