Innlent

Sól­veig Anna reiknar með að Efling geri gagn­til­boð

Tryggvi Páll Tryggvason og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fór fyrir samninganefnd Eflingar á fundinum í dag.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fór fyrir samninganefnd Eflingar á fundinum í dag. Vísir/Arnar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að samninganefnd stéttarfélagsins muni nú leggjast yfir samningstilboð Samtaka atvinnulífsins um gerð nýs kjarasamnings sem lagt var fram í dag. Hún reiknar með því að SA verði gert gagntilboð. 

Samninganefndir Eflingar og SA hittust á fundi í húsnæði ríkissáttasemjara í dag. Þar gerði samninganefnd Samtaka atvinnulífsins Eflingu tilboð um gerð kjarasamnings sem væri efnislega samhljóða samningnum sem samtökin gerðu við Starfsgreinasambandið á dögunum. Hægt væri að ræða aðlögun að þörfum Eflingarfólks en það yrði þó að vera innan ramma umrædds samnings sem gerður var við SGS. 

Að loknum fundi ræddi Sólveig Anna, við Lillý Valgerði Pétursdóttur, fréttakonu, þar sem hún sagði að tilboðið SA yrði nú skoðað.

„Niðurstaðan var að okkur var afhent tilboð sem við munum núna bara skoða og svara innan skamms. Við svona fljóta yfirferð getum við ekki betur séð en að það sé raunverulega ekkert nýtt þarna. Það sé bara verið að leggja til nákvæmlega það sama,“ sagði Sólveig Anna.

Klippa: Sólveig Anna reiknar með gagntilboði

Eftir að tilboð var lagt fram réði samninganefnd Eflingar ráðum sínum, fór snögglega yfir tilboð SA og ákvað að fara betur yfir tilboðið í góðu tómi. Fundi var því næst slitið. Sólveig Anna segist reikna með að SA verði gert gagntilboð.

„Við höfum unnið þannig að við gerum þá gagntilboð. Ég reikna þá með því að það verði niðurstaðan en nú, eins og ég segi, á samninganefnd eftir að fara yfir þetta þannig að ég get ekki svarað meiru á þessari stundu,“ sagði Sólveig Anna.

Hún reiknar með að yfirferðin yfir tilboðið taki ekki langan tíma, aðspurð um næstu skref.

„Við erum nú svona fremur rösk, fljót að vinna þannig að ég held að það taki ekkert mjög langan tíma.“


Tengdar fréttir

Lögðu fram samningstilboð til Eflingar

Samtök atvinnulífsins hafa gert samninganefnd Eflingar tilboð um gerð kjarasamningsins, sem sé efnislega samhljóða kjarasamningnum sem gerður var nýverið við Starfsgreinasambandið. Samtökin segjast tilbúin til þess að ræða aðlögun samningsins að stöðu félagsmanna Eflingar, þó innan kostnaðarramma og meginlína samningsins sem gerður var við Starfsgreinasambandið. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×