Erlent

New York heimilar moltuvinnslu líkamsleifa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sum fyrirtæki heimila aðstandendum að leggja blóm og bréf hjá hinum látna, svo lengi sem um lífræn efni er að ræða.
Sum fyrirtæki heimila aðstandendum að leggja blóm og bréf hjá hinum látna, svo lengi sem um lífræn efni er að ræða. Getty/Mat Hayward/Recompose

Yfirvöld í New York ríki í Bandaríkjunum hafa bæst í hóp fimm annarra ríkja sem hafa heimilað einstaklingum að velja að láta endurnýja líkamsleifar sínar með því að breyta þeim í moltu.

Molta er jarðvegur úr lífrænum úrgangi, sem er unnin með því að láta örverur melta úrganginn, eða í þessu tilviki líkamsleifar viðkomandi. Þessi ráðstöfun líkamsleifa nýtur vaxandi vinsælda en hún er talin vera öllu umhverfisvænni en greftrun og líkbrennsla. 

Líkamsleifarnar eru settar í kistu eða sívalningslaga ílát ásamt lífrænu efni sem styður við vöxt örvera, til að mynda trjákurl og hey. Örverurnar gera sitt í nokkrar vikur, þar til ekkert er eftir nema bein. Ólífrænir hlutir, á borð við gagnráða, eru þá fjarlægðir en moltan sett í gegnum vél sem mylur beinin.

Að því loknu er moltan geymd í nokkrar vikur í viðbót og snúið reglulega, þar til örverurnar hafa einnig unnið á beinflísunum. Eftir tvo til þrjá mánuði fá aðstandendur moltuna afhenta til að ráðstafa að vild, til að mynda í minningargarð.

Sumar trúarstofnanir, til að mynda kaþólska kirkjan, hafa sett sig upp á móti úrræðinu á þeim forsendum að það sé vanvirðing að fara með líkamsleifar fólks eins og hvern annan eldhúsúrgang.

Hér má finna ítarlega umfjöllun um moltugerð úr líkamsleifum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×