Innlent

Rann­saka and­lát hreyfi­hamlaðs manns í Breið­holts­s­laug

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn fannst látinn í byrjun desember.
Maðurinn fannst látinn í byrjun desember. Vísir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur andlát hreyfihamlaðs manns í Breiðholtslaug til rannsóknar. Talið er að hann hafi legið hreyfingarlaus á botni heits potts í um þrjár mínútur áður en sundlaugargestur kom að honum. Maðurinn var á áttræðisaldri þegar hann lést í byrjun desember.

Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. Heimildir fréttastofu RÚV herma að miðlæg rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi upptökur úr eftirlitsmyndavélum sundlaugarinnar, sem sýni aðdraganda andlátsins, til skoðunar.

Rætt var við Hafþór B. Guðmundsson, fyrrverandi lektor í íþróttafræðum við Háskóla Íslands, sem segir skelfilegt að slík atvik verði og að þau eigi ekki að geta gerst. 

Hafþór er með sérhæfingu á sviði sund- og björgunarmála og hefur verið fenginn til að skrifa leiðbeiningar fyrir Umhverfisstofnun um það hvernig öryggi skuli háttað í sundlaugum landsins.

Hann segir í samtali við RÚV að langflestar stærri laugar landsins sé búnar öryggisbúnaði sem nemi þegar fólk liggur á botni lauga í um hálfa mínútu. Hann kveðst ekki vita hvort Breiðholtslaug sé svo búin.

Hafþór kallar eftir því að nefnd verði skipuð til þess að rannsaka dauðsföll í sundlaugum, en á undanförnum áratug hafa þónokkur slík dauðsföll orðið. Hann fjallaði um öryggismál sundlauga í aðsendri grein hér á Vísi í upphafi síðasta árs.


Tengdar fréttir

Sund­höllin er með skynjara sem sendir við­bragð ef manneskja liggur hreyfingar­laus á botni sund­laugar

Sundhöll Reykjavíkur er með eftirlitskerfi í innilaug sem sendir frá sér viðvörun ef manneskja liggur hreyfingarlaus á botni laugarinnar. Fyrirtækið Swimeye sem selur búnaðinn segir búnaðinn bregðast fyrr við en sundlaugarverðir. Faðir manns sem lést eftir að hafa legið á botni sundlaugarinnar á fimmtudag veltir fyrir sér hvað fór úrskeiðis.

Segja lauga­verði hafa verið á sínum stað þegar slysið varð

Laugarverðir voru í sal og turni Sundhallarinnar þegar 31 árs karlmaður fannst þar á botni sundlaugar á fimmtudag, að sögn íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur. Maðurinn var síðar úrskurðaður látinn en að sögn föður hans hafði hann legið í um sex mínútur á botni laugarinnar.

Andlát í Sundhöll Reykjavíkur

Maður sem fannst á botni sundlaugar í Sundhöll Reykjavíkur á fimmtudaginn var úrskurðaður látinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×