Innlent

Appel­sínu­gul við­vörun á morgun og Vega­gerðin í við­bragðs­stöðu

Árni Sæberg skrifar
Til þess gæti komið að Reykjanesbrautinni verði lokað á morgun.
Til þess gæti komið að Reykjanesbrautinni verði lokað á morgun. Vísir/Vilhelm

Appelsínugul viðvörun tekur gildi klukkan sjö á gamlársmorgun á Suðurlandi og gular viðaranir verða víða í gildi á morgun. Vegagerðin er í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegra lokana á Reykjanesbraut í nótt.

Veðurstofa Íslands uppfærði viðvaranakort sitt fyrir skömmu. Nú er búist við snjókomu og skafrenningi víða á sunnan og vestanverðu landinu á morgun og éljum norðantil á nýársmorgunn.

„Vegna hátíðanna er margt fólk á ferli og má því ætla að samfélagsleg áhrif veðursins verði mikil. Við bendum fólki á að fylgjast vel með veðurspá, viðvörunum og færð,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Á Suðurlandi verður appelsínugul viðvörun í gildi á milli 07 og 15 á morgun með austan hvassviðri og talsverðri eða mikilli snjókomu.

Gul viðvörun tekur gildi klukkan 02 í nótt á Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði og gildir fram á hádegi á nýársdag. Klukkan 03 í nótt tekur gul viðvörun í gildi á Vestfjörðum vegna austan hvassviðri eða hríð og gildir til klukkan 17.

Þá verður gul viðvörun í gildi milli klukkan 09 og 19 á morgun á Suðausturlandi vegna allhvassrar austanáttar með talsverðri eða mikilli snjókomu.

Reiðubúnir að selflytja flugfarþega

Í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar eru vegfarendur og þeir sem eiga pantað flug að morgni gamlársdags hvattir til að fylgjast vel með færð á vefnum umferdin.is og flugáætlunum flugfélaga. þar segir að færð verði víða þung á Suður- og Suðausturlandi og mögulega komi til þess að vegum verði lokað.

„Vegna hugsanlegra lokana á Reykjanesbraut er Vegagerðin í viðbragðsstöðu og keppst verður við að halda Reykjanesbraut opinni eins mikið og kostur er. Ef til lokunar kemur er líklegt að skoðaður verði fylgdarakstur á rútum milli höfuðborgarsvæðis og flugstöðvar í samráði við Isavia,“ segir í tilkynningu

Þá segir að til þess gæti komið að Hellisheiði og Þrengslavegi verði lokað milli 06 og 09. Líklega muni lægja að morgni gamlársdags en þó megi búast við því að færð geti spillst aðfaranótt nýársdags og fram eftir degi á nýársdag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×