Fótbolti

Brjálaður Neymar brunaði á brott fyrir leikslok

Valur Páll Eiríksson skrifar
Neymar var hreint ekki sáttur við dómarann Clément Turpin.
Neymar var hreint ekki sáttur við dómarann Clément Turpin. Catherine Steenkeste/Getty Images

Brasilíumaðurinn Neymar var afar ósáttur eftir að honum var vísað af velli í 2-1 sigri Paris Saint-Germain á Strasbourg í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Neymar fékk tvö gul spjöld með skömmu millibili snemma í síðari hálfleik í gær. Síðara gula spjaldið fékk hann fyrir leikaraskap og var því vísað í sturtu.

Þá var staðan 1-1 en félagi hans Kylian Mbappé skoraði sigurmark PSG af vítapunktinum seint í uppbótartíma.

Neymar var afar ósáttur við Clément Turpin, dómara leiksins, vegna spjaldsins og mótmælti hástöfum áður en hann gekk til búningsherbergja.

Reiðin virðist ekki hafa verið af honum runnin að baðinu loknu þar sem franskir miðlar greina frá því að hann hafi brunað beint heim, áður en leiknum var lokið.

Neymar lagði upp fyrra mark PSG í leiknum fyrir landa sinn Marquinhos en sá skoraði svo sjálfsmark tíu mínútum áður en Neymar fékk spjöldin tvö. Báðir voru þeir hluti brasilíska landsliðsins sem var afar vonsvikið með að falla út í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar eftir tap fyrir Króatíu í vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×