Innlent

Íbúar beðnir um að sýna þolinmæði

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Snjóruðningstæki byrjuðu að moka í nótt en búist er við að það taki fjóra til sex daga að klára götur í borginni.
Snjóruðningstæki byrjuðu að moka í nótt en búist er við að það taki fjóra til sex daga að klára götur í borginni. Vísir/Villi

Búist er við að það taki fjóra til sex daga að klára að moka allar helstu götur í Reykjavík. Snjóruðningstæki byrjuðu að ryðja götur í nótt. Borgarbúar eru minntir á að moka frá ruslatunnum.

Hjalti J. Guðmundsson skrifstofustjóri Borgarlandsins segir að byrjað hafi verið að að ryðja stofnbrautir og strætóleiðir í nótt en miðað sé við að stofnbrautir og strætóleiðir séu færar fyrir klukkan sjö að morgni og að hreinsun annarra megin umferðargatna sé lokið fyrir kl. átta. 

Hjalti J. Guðmundsson skrifstofustjóri Borgarlandsins.Vísir

„Það voru allar vélar kallaðar út í nótt og við munum bara taka þetta eftir okkar forgangi og ferlum. Byrja á stofnanatengiliðum og vinna okkur svo í húsagöturnar,“ segir Hjalti.

Hann segir að það taki nokkra daga að klára allar götur.

„Við erum bara með þennan venjulega mannskap í verkefnið og tæki. Þá tekur þetta okkur svona fjóra fimm sex daga fer eftir hvað verður mikill snjór,“ segir hann.

Hjalti segir að svipað ástand hafi komið upp á síðasta ári.

„Í fyrravor var ástandið svipað það er nú ekki lengra síðan. Þannig að við höfum séð þetta áður og vinnum þetta bara eftir okkar ferlum og vonandi tekst okkur bara að gera þetta eins fljótt og mögulegt er ,“ segir hann. 

„Mig langar að óska eftir því að fólk sýni okkur örlitla þolinmæði í þessu verkefni.“

Íbúar beðnir um að moka frá sorptunnum

Sorphirða Reykjavíkurborgar minnir á heimasíðu borgarinnar íbúa á að moka frá sorptunnum sínum og tryggja að gönguleiðir séu greiðar að þeim til að starfsfólk komist að til að tæma. Einnig sé mikilvægt að sjá til þess að bílar og annað hindri ekki aðgengi að sorpgerðum. Fram kemur að starfsfólk sorphirðunnar neyðist til þess að skilja tunnurnar eftir ef það kemst ekki að þeim til að losa.

Sorphirðan er að störfum í dag í Vesturbæ og Miðbæ. Einnig er verið að losa endurvinnsluílát í Grafarvogi. Unnið verður lengur þessa vikuna og á Gamlársdag til þess að bregðast við erfiðri færð en búast má við einhverjum töfum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×